22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

23. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Flm. (Einar Árnason):

Fyrir hönd okkar flm. þessarar till. vil jeg leyfa mjer að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.

Á þingunum 1921 og 1922 voru samþ. till. líks efnis og þessi, og störfuðu á báðum þeim þingum sjerstakar nefndir að því að athuga ýms viðskiftamál landsins. Á síðasta þingi var engin slík nefnd kosin, enda kom engin till. um það fram. Verð jeg þó að líta svo á, að full nauðsyn hefði verið á slíkri nefnd, þar sem telja verður viðskiftamál landsins, bæði út og inn á við, með mikilvægustu og vandamestu úrlausnarefnum. Nú er öllum kunnugt, að erfiðleikarnir í viðskifta- og fjármálum landsins hafa aukist svo með ári hverju, að lítil eða engin von er um, að af bjargist, nema tekið sje til ákveðinna og alvarlegra ráðstafana hið bráðasta.

Má í þessu efni einnig vísa til ræðu hæstv. fjrh. (KlJ) við 1. umr. fjárlaganna, nú fyrir skemstu. Kemst hann að þeirri niðurstöðu, að útlitið sje svo ískyggilegt, að ef haldið verði áfram á sömu braut og hingað til í fjármálunum, þá stefnum við beint að gjaldþroti. Því er óhjákvæmilegt, að þingið láti nú mál þessi til sín taka og sjálfsagðasta byrjunin er að skipa sjerstaka nefnd, er starfi að undirbúningi þeirra ráðstafana er tiltækilegastar þykja.

Þegar um er að ræða verkefni nefndar þessarar, vil jeg leyfa mjer að benda á nokkur þau mál, er jeg tel sjálfsagt að hún hafi með höndum. Skal jeg fyrst drepa á norska kjöttollsmálið.

Það er að sönnu engin þörf á því að rekja gang þess máls frá því Norðmenn fyrir 2–3 árum tóku að hækka toll á aðfluttu kjöti. Sú saga er öllum hv. deildarmönnum kunn. Norðmenn hafa, þrátt fyrir margítrekaðar og vinsamlegar málaleitanir af okkar hálfu um lækkun á tollinum, hvað eftir annað hækkað hann, og nú síðast fyrir fáum mánuðum svo gífurlega, að nú mun hann nema um 70 kr. á tunnu.

Hitt er aðalatriðið, að þetta þing má ekki skiljast svo við málið, að ekki sje reynt til þrautar að koma því í þolanlegt horf. Nú stendur svo á, að stórþingið norska situr að störfum um þessar mundir. Þessvegna er nauðsynlegt að hefjast nú handa og reyna að fá tollinn afnuminn eða mikið lækkaðan, og það áður en þessu þingi lýkur.

Þá er í öðru lagi skuldir landsins út á við og verðgildi íslensku krónunnar, mál, sem nefnd þessi verður að taka til athugunar. það er kunnugt, að skuldir ríkissjóðs og einstaklinga hjer á landi, út á við, skifta tugum miljóna. Þetta, ásamt verðfalli krónunnar, bakar þjóðinni árlega óútreiknanlegt tjón. Nú verður ekki um það deilt, að þessar skuldir verða að minka, en það getur ekki orðið með öðrum hætti en viðskiftajöfnuðurinn verði okkur í hag. Með öðrum orðum, að við seljum mun meira út úr landinu en við kaupum inn. Ef okkur hepnast það, ættum við jafnframt að geta gert einhverjar þær ráðstafanir, er hækkuðu verðgildi krónunnar og festu gengið, svo að við losnuðum við hinar tíðu og hættulegu verðsveiflur. Flestum þeim, sem í alvöru hugsa um velgengni þjóðarinnar, kemur saman um það, að fyrsta ráðið til þess að lagfæra verslunarjöfnuðinn og hið sjálfsagðasta, sje, að kaupa ekki inn í landið aðrar vörur en þær, sem bráðnauðsynlegar eru til lífsviðurværis og rekstrar atvinnuveganna. En þegar um er rætt, hvernig marki þessu verði náð, þá skiljast leiðirnar. Sumir halda því fram, að best sje að ná markinu með því að setja háan innflutningstoll á ónauðsynlegar vörur, þá verði þær ekki fluttar inn. Aðrir, og jeg held að þeir sjeu fleiri, vilja setja algert innflutningsbann á margar vörutegundir, og hefi jeg fyrir satt, að þeirri leið sjeu bankarnir mjög fylgjandi. Jeg ætla mjer ekki, í sambandi við þessa till., að leggja neinn dóm á, hvor þessara leiða muni heppilegri, en vildi aðeins benda á þetta, til þess að sýna, að hjer er verkefni, og það ekki óverulegt, fyrir nefnd þá, er till. gerir ráð fyrir, að skipuð verði.

Fleiri viðskiftamál mætti nefna, sem nefnd þessi ljeti til sín taka, en jeg hirði ekki um, að svo komnu, að fara lengra út í það mál.

Það kann vel að vera, að sú mótbára komi fram gegn skipun nefndar þessarar, að það sje innan verksviðs fjárhagsnefndar að athuga þessi mál. Því er fyrst og fremst að svara, að í fjhn. mun ekki hafa verið skipað með sjerstöku tilliti til þessara mála. Og í öðru lagi er gert ráð fyrir, að nefnd þessi verði skipuð fleiri mönnum en fjhn. Verð jeg að telja það heppilegra, því verði nefndirnar í báðum deildum sammála um till. sínar í þessum málum, þá gefur það þeim meira gildi, og því sterkari sem nefndirnar eru, þess meiri líkur eru til, að till. þeirra nái fram að ganga. Sje jeg ekki ástæðu til frekari orðalengingar, því þess þykist jeg fullviss, að enda þótt flokkunum í þinginu beri margt á milli, þá sjeu menn þó sammála um að gera alt sitt ítrasta til þess að reisa við fjárhag landsins.