22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

23. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jóhann Jósefsson:

Jeg er sammála hv. flm. (EÁ) um það, að brýn nauðsyn ber til þess, að þetta þing láti sem fyrst og sem rækilegast öll viðskiftamál landsins til sín taka. Að mínu viti verður óhjákvæmilegt að athuga með hverju móti helst má fá festu á gengi ísl. krónunnar. Sama máli er að gegna með kjöttollsmálið. Horf það, sem það mál er komið í, er orðið óþolandi, og er því skylda þingsins að reyna að leiða það til lykta á viðunandi hátt.

Hvaðanæfa af landinu heyrast raddir um að þjóðin verði, hvað sem tautar, að takmarka við sig allan þann varning, sem hún má með nokkru móti án vera, enda er vitanlegt, að of mikið hefir verið á boðstólum hjer á landi af slíkum vörum undanfarið. Um þetta atriði eru allir sammála. Hitt er rjett, eins og hv. flm. (EÁ) tók fram; skoðanir manna eru skiftar um það, með hverju móti heppilegast muni að takmarka innflutninginn. Sumir vilja algert innflutningsbann á hið ónauðsynlegasta, aðrir kjósa heldur að tolla það mjög fram yfir það, sem nú er. En ekki er tímabært hjer að rökræða, hvor leiðin yrði heppilegri. Það verður verkefni þeirrar nefndar, sem fær viðskiftamálin til meðferðar, að gera tillögur sínar þar að lútandi. En hins vil jeg strax geta, að hvora leiðina sem þingið velur, má ekki undir höfuð leggjast, að nákvæmlega sje athugað hver áhrif ráðstafanirnar kunna að hafa á hag ríkissjóðs sjálfs.

Með það fyrir augum tel jeg liggja beinast við, að fjhn. þessarar hv. deildar fengi mál þessi öll til meðferðar, en fengi þó jafnframt bendingu um, að bæta við sig tveim mönnum, með því að störf hennar verða með þessu móti ærið yfirgripsmikil.

Mjer skilst sem sje, að hvaða till., sem væntanleg viðskiftamálanefnd kynni að gera, þá hlytu þær að leggjast fyrir fjhn. til umsagnar. Því tel jeg mun betur ráðið, að fjhn. sje með að verki, þegar frá byrjun. Önnur ástæða er sú, að á þennan hátt mun sparast vinnutími þingsins, fremur en ef tvær nefndir eiga að hafa sömu málin til meðferðar, fyrst viðskiftamálanefnd en síðan fjhn.

Niðurstaða mín verður því þessi: Jeg er í aðalatriðunum samþykkur hv. flm. (EÁ) um, að þau mál, sem hann drap á, gengismálið, norska kjöttollsmálið og takmörkun á innflutningi óþarfavarnings o. fl., verða að takast til yfirvegunar nú á þinginu, en með því að jeg tel heppilegra, að fjhn. fái þau til meðferðar, heldur en ný nefnd, leyfi jeg mjer að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Með því að deildin telur heppilegast, að fjárhagsnefndin hafi viðskiftamálin til meðferðar, og sje aukið við nefndina tveim mönnum í því skyni, ef þörf þykir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.