11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (3434)

57. mál, veð

Bernharð Stefánsson:

Jeg gat vel fallið frá orðinu, eftir að háttv. þm. Ak. (BL) hafði talað, því jeg vildi einmitt taka það sama fram. Jeg tel mjög vafasamt, að þetta frv. verði til bóta. Háttv. flm. (MT) hjelt því fram, að þetta frv. ætti að tryggja betri meðferð á jörðunum, en það efast jeg stórlega um, að svo verði. Hann kvað tilganginn vera þann, að festa áhöfnina við jarðirnar. En það er mjög vafasamt, að það verði til bóta. Hitt þætti mjer líklegra, að það yrði einmitt oft til ills. Jeg skal að vísu játa, að ef sjálfsábúð væri alment ríkjandi, þá mætti færa þetta til sanns vegar. En það eru mjög margar jarðir í leiguábúð, og er þetta ákvæði vafalaust til ills fyrir leiguliða, að hann taki við áhöfn, sem jarðareigandi á. Það yrði oft til fyrirstöðu því, að hann eignaðist sjálfur skepnur, því jarðirnar þola oft ekki nema mjög takmarkaða áhöfn. Þar, sem jeg þekki til, er því svo varið, að þeir leiguliðar, sem hafa nokkur ráð, vilja helst hafa sem fæst kúgildi. Að vísu finst oft byrjendum þægilegra að hafa þau, en sú mun oftast verða raunin á, að þau verða þeim til bölvunar. Er leiguliðinn yfirleitt nægilega háður landeiganda, þó að þetta bætist ekki við, að jarðeigandi eigi alt, sem hann býr við.

Jeg mun því greiða atkvæði gegn þessu frv. Ekki einasta vegna þess, sem jeg hefi nú drepið á, heldur og líka af því, að jeg held, að bændum sje hollast að vera ekki í hærri skuldum en svo, að jarðir þeirra sjeu nægileg veð fyrir þeim. Það er takmörkum bundið, hve mikilla skulda má stofna til fyrir hvaða rekstur sem er. Er oftast heppilegra að fara ívið hægara í framkvæmdum en að hlaða á sig skuldum upp fyrir eyru.