15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (3436)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jakob Möller:

Það var eitt atriði, sem mig langaði til að bæta við orð hv. frsm. minni hl. (HStef). Þetta frv. er kallað: „Frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka.“ Það er oft gott að geta fundið eitthvert orð til að rjettlæta sig, þegar komið er út á glapstigu. Þegar hjer er farið fram á að hækka tolla á nauðsynjavörum, er það látið í veðri vaka, að það sje uppbót fyrir gengislækkun. Í þessu tilfelli er þetta ekki annað en hreinasta blekking. Ríkissjóður hefir þegar fengið þessa uppbót.

Eins og hv. frsm. meiri hl. (JÞ) tók rjettilega fram, geta menn best fylgst með verðgildi krónunnar með því að bera saman vöruverð á ýmsum tímum. Þó að gengið sje lágt nú, vita allir, að vöruverð er nú lægra en á síðustu árum, en það sýnir, að þótt krónan hafi lækkað í hlutfalli við peninga annara þjóða, þá hefir verðgildi hennar vaxið í raun og veru. Ef menn athuga einstakar vörutegundir, sjá menn þetta og að ríkissjóður hefir fengið bætt verðfall krónunnar. Kol kostuðu t. d. fyrir ófriðinn 30 kr. smálestin, en nú 90 kr. Kolatollurinn var fyrir ófriðinn 1 kr., en nú 3 kr. (án „gengisviðauka“). Ríkissjóður hefir því þannig fengið bættan gengismuninn á þessum tolli, og sama er um aðrar vörutegundir. Vörutollurinn hefir verið þrefaldaður, nema í 2. flokki, þar er hann ferfaldur við það, sem áður var. Að kalla þessa tollhækkun gengisuppbót, er því einungis að slá ryki í augu almennings, því að tollar eru nú heldur hærri í hlutfalli við vöruverð heldur en þegar þeir voru settir fyrst.

Það eitt gæti rjettlætt vörutollinn, að hann væri mjög lágur í samanburði við verð vörunnar, því að þyngdartollur er annars altaf ranglátur. Nú hefir þessi tollur hækkað mjög mikið, og hafi verið hættulegt að hafa tollinn háan fyrir ófriðinn, er engu síður ástæða til þess nú að fara varlega. Jeg þykist hafa sýnt fram á, að þessi svokallaða gengisuppbót er ekki annað en órjettmæt rjettlæting á beinni tollhækkun, og þyrfti því að athuga sjerstaklega, hvort slík hækkun sje tiltækileg.

Hinsvegar heldur minni hl. því fram, að til þess að auka tekjur ríkissjóðs sje hollasta leiðin að hækka toll eingöngu á ónauðsynlegum vörum. Þessi tollhækkun nær líka til þeirra vörutegunda, og á móti þeirri hækkun get jeg ekki haft, en hefði heldur viljað láta hækka þá tolla sjerstaklega. Af þessum vörutegundum hefir ríkið einkasölu á tveimur, og hefir því verið haldið fram, að ná megi meiri tekjum af þeim með því að hækka verðið, meðan ekki væri ráðið, að ríkið slepti þeirri einkasölu. Þyrfti því að vísu engrar tollhækkunar með á þeim. Minni hl. hefir þó lýst yfir í nefndinni, að hann sje fús á að mæla með tollhækkun á öllum þessum tegundum, nema sykri. Það er að vísu rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að sykurtollurinn hefir ekki hækkað í hlutfalli við verðið. En þar sem allir aðrir tollar hafa hækkað svo gífurlega, sje jeg ekki ástæðu til að telja eftir þessa uppbót á hinni almennu tollhækkun.

Jeg mun greiða atkvæði gegn þessu frv. aðallega af princip-ástæðum. Jeg get ekki samþykt tollhækkun á brýnustu nauðsynjavörum. Þó að svo vilji til, að þessi hækkun sje ekki tilfinnanleg á lífsnauðsynjum almennings, kemur hún þó hart niður á framleiðslunni. Það mun nærri lagi, að hún nemi 1000 kr. á hvern togara, og á almenning, sem kol notar, er þetta einnig nokkur skattur. En það er

þessi braut, sem jeg vil aðallega mótmæla, með því að vera á móti frv., að tolla lífsnauðsynjar og nauðsynlegar vörur til framleiðslunnar frekar en gert hefir verið. Sú stefna hlýtur, þegar til lengdar lætur, að auka erfiðleika landsmanna, en getur ekki ljett þeim. Hún mun auka dýrtíð í landinu, og hafa því þveröfug áhrif við það, sem til er ætlast, lækka gengi krónunnar enn meir, í stað þess að hækka það.

Það er um þetta frv. sem næsta frv. á undan, að jeg hefði kosið, að þau hefðu ekki komið til 2. umr. fyr en menn hefðu sjeð annað frv., sem fjhn. hefir í smíðum, og tel jeg þá vafalaust, að hv. deildarmönnum hefði þótt hættuminna að leggja á móti þessu frv. en nú virðist. Verði frv. samþykt við þessa umræðu, geri jeg ráð fyrir að flytja brtt. við 3. umr. um að hækka aðeins toll á munaðarvörum, en undanskilja vörutollinn. Mismunurinn á því, sem sú hækkun gæfi, og þeirri hækkun, sem þetta frv. fer fram á, yrði ekki svo ýkjamikill, sennilega um 200 þús. kr., og mun það varla hættulegt hag ríkissjóðs. Nú liggur fyrir brtt. um að undanskilja kol og salt tollhækkuninni, og mun jeg greiða henni atkv. Nái hún samþykki, verður talsvert minni munur, þó að hitt sje einnig tekið undan.

Það mun ef til vill þykja ástæðulaust að taka allar vörutollsvörur undan, enda er það ekkert aðalatriði að undanþiggja vörur í 3., 6. og 7. fl. En engin ástæða er heldur til að hafa tollhækkunina á þessum vörutegundum í tvennu lagi. Verði lagður verðtollur á þessar vörur, eins og fjhn. mun leggja til, liggur beint við að hafa þann toll þeim mun hærri, heldur en að hækka þungatollinn, sem allir viðurkenna, að sje ranglátur, þegar hann fer að hækka.