31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

62. mál, kosningar í bæjarmálefnum Reykjavíkur

Frsm minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil minna á það, út af því, sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði áðan um þessa brtt. mína, að í Reykjavík hefir það viðgengist, að kjörstjórn leyfi hverjum þeim manni að kjósa, sem hún er sannfærð um, að hefir þann rjett, þótt fallið hafi af kjörskrá. Á kjördegi situr yfirkjörstjórnin á kjörstað og hefir manntalið og fleiri gögn, sem að því lúta, hjá sjer og athugar hvern kjósanda, sem þannig stendur á fyrir. (MJ: Þá þarf ekki að vera að breyta þessu. — KlJ: Jú, því þetta er ólöglegt). Framvegis á þetta ekki að vera hægt, því í 3. gr. frv. stendur: „Skal viðbótarkjörskráin fullger ekki síðar en 14 dögum áður en kosning fer fram, og eftir að bæjarstjórn hefir gengið frá henni, má ekki bæta neinu nafni á kjörskrá nje strika nokkurt nafn út af henni.“ (MJ: Þetta fellur niður, ef brtt. okkar verður samþykt). Jeg álít nú, að frv. mundi fremur ná samþykki deildarinnar en brtt. allshn., og því gerði jeg þessa tilraun að lagfæra þetta með brtt. minni. Jeg álít, að þessi brtt. mín sje til talsverðra bóta. Hún á að ráða bót á því ranglæti, að menn verði sviftir kosningarrjetti, þótt þeir af vangá hafi fallið út af kjörskrá og ekki haft tækifæri til að athuga það. Háttv. 4. þm. Reykv. taldi erfiðleika á því að koma þessum sem öðrum breytingum á, enda lifðum við í svo mörgu á leifum liðinna tíma, og má þetta vel vera rjett hjá honum. En nú höfum við í orði kveðnu lagt niður kosningarrjett, sem áður var bundinn við ákveðnar eignir, eða við erum altaf að færa okkur nær í þá áttina, og nú hefi jeg með þessu lagt til, að menn stígi enn eitt sporið á þeirri braut. Við verðum að gæta þess, að Reykjavík hefir um langan tíma búið við þrengri kosningalög en nokkrir aðrir staðir á landinu, og verði nú breytt ákvæðum kosningalaganna um aldurstakmarkið og fátækrastyrk, og kæmist hún í því efni fram úr öðrum kaupstöðum á landinu, þá er það aðeins til að bæta það upp, hversu Reykjavík hefir lengi búið við miklu verri kosningalög en aðrir kaupstaðir á landinu. Það er og eðlilegt, að höfuðstaður landsins gangi á undan í þessu efni; enda hefir bæjarstjórn Reykjavíkur þegar sýnt vilja sinn til forgöngu í þessu efni, í 1. gr. þessa frumvarps.

Jeg óttast ekki svo mjög þær skaðlegu afleiðingar, sem þetta á að geta haft að áliti sumra háttv. þm., þó það yrði að lögum; en jeg tel rjettindamissi manna við það, að hafa þegið sveitarstyrk, geta verið allskaðlegan hemil í sumum tilfellum, en þó tel jeg það ekki neina algilda reglu. Þeir eru margir, sem ekkert láta fæla sig frá að leita fátækrastyrks. Jeg geri annars ráð fyrir, að forlög þessa frv. sjeu þegar ákveðin, en jeg vona þó, að frv. bæjarstjórnar Reykjavíkur verði fremur samþykt óbreytt, sem einskonar millivegur milli tillagna meiri og minni hl. allshn., ef minnihlutatillögurnar ná ekki fram að ganga.