19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (3464)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Þegar jeg í þingbyrjun bar fram frv. til laga um undanþágu frá lögum nr. 33, 19. júní 1922, er fól í sjer heimild fyrir stjórnina til þess að veita 6 botnvörpuskipum útlendum leyfi til þess að reka fiskiveiðar frá Hafnarfirði og kaupa þar dýrmætar húseignir, með tilheyrandi áhöldum, stakkstæðum og fleira, sem Landsbankinn á þar, þá færði jeg fram gildar ástæður fyrir því, bæði í greinargerðinni fyrir frv. og sömuleiðis við umræðurnar hjer í deildinni, að óhjákvæmilegt væri að veita Hafnfirðingum verulega fjárhagslega aðstoð frá því opinbera, til þess að auka skipastól sinn, ef frv. yrði felt. Nú var það felt, sem kunnugt er. En við umr. kom það greinilega í ljós, að hv. þdm. vildu gera það, sem unt væri, til að bæta úr atvinnuþörf bæjarins með innlendu fje og innlendum skipastól, fremur en leyfa útlendingum undanþágu frá fiskiveiðalögunum. Í því trausti, að háttv. þm. sjeu enn á sömu skoðun, hefir sjávarútvegsnefnd leyft sjer að bera þetta frv. fram fyrir háttv. deild. Nauðsynin er enn sú sama að bæta atvinnuþörf Hafnarfjarðar, og það er skoðun nefndarinnar, að úr henni verði að bæta, og að allmikil bót geti á þessu orðið, ef þingið vill verða við tilmælum þeirra fjelaga, sem í ráði er að stofna í Hafnarfirði, til þess að kaupa skip og gera út þaðan. Þetta er að vísu ekki svo viss hjálp, að á henni verði mikið bygt. En hjer er ekki í önnur hús að venda.

Með frv. er ætlast til þess, að ríkisstjórnin veiti ábyrgð ríkissjóðs fyrir 500 þús. kr. til skipakaupa, alt að 200 þús. kr. á skip, gegn 1. veðrjetti í skipinu, og gegn því, að fjelögin sjálf leggi fram 1/3 á móti. Að öðru leyti setur stjórnin þau önnur skilyrði fyrir lántökunni, sem hún telur nauðsynleg til þess að tryggja ríkissjóð. Vitanlega getur trygging í skipum aldrei talist fyllilega örugg. Ýms óhöpp geta hent þessi skip, og á útgerðinni getur altaf tapast, eins og átt hefir sjer stað sum hin síðari ár. En þegar litið er til þess, að hjer er um að ræða annan höfuðatvinnuveginn, sem landsmenn byggja líf sitt á, þá dugar ekki að efast um framtíð hans, fremur en um framtíð sjálfrar þjóðarinnar. Því að ef þessi atvinnuvegur hverfur úr sögunni, þá verður fólkið, sem hann stundar, líka að hverfa burtu. Því ekki tekur landbúnaðurinn við því. En mesta tryggingu fyrir ríkissjóð tel jeg það, að áhugasamir menn leggja alla sína krafta fram til þess að reka svona fyrirtæki, og eiga undir því bæði efnahag sinn og atvinnu. En það tel jeg einnig besta tryggingu fyrir því, að fyrirtækið hepnist.

Jeg vona, að hv. þm. skilji, að hjer er um tilraun að ræða, til þess að auka skipastólinn. Og þeir, sem biðja um ábyrgð ríkissjóðsins, búast við að geta notað hana í Skandinavísku löndunum. Jeg býst ekki við því, að bankarnir hjer vilji frekar lána gegn þessari ábyrgð heldur en tryggingu í skipunum. En í erlendum bönkum er ekki hægt að fá lán gegn veðrjetti í skipum, nema með ýmsum skilyrðum viðvíkjandi vátryggingum o. fl., sem ógerningur er að uppfylla.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta. Hv. þd. eru kunnir málavextir, enda eru þeir í aðalatriðum prentaðir á sama þingskjali og frv. Jeg treysti því, að því verði tekið vingjarnlega. Og að lokinni umr. legg jeg til, að því verði vísað til fjhn.