19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3474)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Magnús Jónsson:

Mjer finst þetta litla frv. vera svo varhugavert, að það sje full ástæða til þess, þó að það sje eigi þingvenja, að láta athuga það nánar í fjárhagsnefnd. (ÁF: Jeg vildi helst, að frv. yrði drepið strax, ef það á að falla á annað borð.) Jeg geri nú ráð fyrir, að það kunni að vera þm„ sem ekki eru ráðnir í því enn, hvernig þeir greiða atkv. um þetta, og að þeir muni miklu frekar vilja láta athuga frv. í nefnd en drepa það strax, enda er það enginn ósiður, að vísa frv. til fjhn. Þegar þingið veitti heimild til að ábyrgjast togaralánin í Englandi hjer á árunum, var það vegna þess, að við borð lá, að þessir erlendu bankar, og einkum einn þeirra, sem hingað hafði þá sent umboðsmann, gengju að útgerðarfjelögunum, sem voru stórskuldug þar orðin, og það hefði orðið til ómetanlegs tjóns, ef fjelögin hefðu þá orðið að selja skipin fyrir sama sem ekkert verð. Hjer er um alt annað að ræða; hjer er rætt um það, að heimila stjórninni í mjög svo almennum orðum að ábyrgjast lán til þess að kaupa togara. Bæði er nú það, að það er nokkuð hæpið fyrir ríkissjóðinn að taka á sig stórfeldar ábyrgðir eins og hag hans er komið, en svo er annað, sem þó er varhugaverðara. Hjer vantar alla tryggingu fyrir því, að þessi ábyrgð gagni nokkuð. Í greinargerðinni er að vísu ekki talið ólíklegt, að lán fengist ytra gegn þessari ábyrgð, en alla vissu vantar, og þá erum við komnir út á þá óviðkunnanlegu braut, svo að ekki sje meira sagt, að einstakir menn eru að ferðast um ytra og láta banka og aðrar lánsstofnanir meta ríkissjóðinn íslenska, hve mikil ábyrgð sje í honum. Og kanske fyndist einhverjum þar, að nokkuð væri gálauslega með hann farið, þegar einstakir menn geta þannig flíkað með ábyrgðir hans framan í hinum og þessum. Jeg tel ekki mögulegt að veita þannig lagaða ríkissjóðsábyrgð fyr en lánið er trygt, ef hún kemur til; því að öðrum kosti er að því hinn mesti lánstraustsspillir. Þetta vildi jeg að nefnd athugaði vel og vandlega áður en flanað sje að því að samþykkja slík lög sem þessi.