19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (3479)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Baldvinsson:

Jeg mun greiða atkv. með frv. til 2. umr., til þess að fá tækifæri til að koma fram með brtt. við það. Og úr því jeg er nú staðinn upp, þá get jeg ekki látið vera að minnast á sumt, sem komið hefir fram í þessum umr.

Það er, eins og menn muna, þjóðtrú hjá okkur, að þegar fálkinn komi að hjartanu í rjúpunni, þá reki hann upp óp mikið, af því hann muni þá fyrst eftir því, að hún sje systir hans. Það á sjer nokkuð svipað stað hjer í þessum þingsal, þegar farið er að minnast á einhverja stórútgerðarmenn landsins. Óðara er heill hópur hv. þm. sprottinn upp þeim til varnar, með reglulegu ránfuglsópi. Svo var, þegar komið var fram með frv. um að veita undanþágu handa útlendum skipum til að reka veiðar frá Hafnarfirði. Hjer var um að ræða stórhagsmunamál almennings, til að bæta úr atvinnuleysi því, sem íslensku útgerðarmennirnir ekki megnuðu eða vildu bæta úr. En klíka nokkurra stórútgerðarmanna vildi ekki hafa þessa samkepni í fiskiveiðunum, og því var það felt. Hagsmunir hinna mörgu atvinnuleysingja komu ekki til greina. Sjávarútvegurinn með stórskipaútgerðinni er því miður að færast í það horf, að það eru aðeins örfáir einstaklingar, sem reka hann; og þegar þeir ekki þykjast græða nóg, hætta þeir rekstrinum, svo að hópur manna lendir á vonarvöl af atvinnuleysi. — Jeg geri nú ráð fyrir, að þótt frv. þetta yrði samþykt., að þessir máttugu atvinnurekendur hefðu einhver ráð til þess að sjá svo um, að lánsstofnanirnar daufheyrðust við lánbeiðninni, ef brtt. verður samþ. og ábyrgðin bundin við innlendar lánsstofnanir; og væri þá sama og að heimildin hefði aldrei verið gefin.