19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (3485)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi aðeins leiðrjetta það, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði. Honum þótti hentugt að misskilja ummæli mín og gera þau svo víðtæk, að þau næðu til allra, sem sjávarútveg stunda hjer við land. En hv. þm. skildi vel, að jeg átti aðeins við þá, sem hafa með höndum togaraútveginn, enda fór hann að verja þá, að venju. Og hann kom með þá merkilegu upplýsingu — sem raunar hefir fyr heyrst hjer, að þeir væru alt af að tapa, en endaði samt ræðu sína á því, að nú stæði útgerðin þó, guði sje lof, í fullum krafti. Minti þessi röksemdafærsla á bóndann, sem sagðist altaf hafa tapað, í 30 ár, en átti að þeim loknum 40–50 þúsund krónur. Svipaðar voru varnir hv. þm. fyrir skjólstæðinga sína, en ekki verður það vefengt, að það er af þeirra völdum, hve fast er staðið móti þessu máli, þó þörf sje á auknum tækjum.