03.04.1924
Efri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

74. mál, fjáraukalög 1923

Sigurður Eggerz:

Það voru aðeins örfá orð viðvíkjandi athugasemdinni um húsameistara ríkisins. Þessi athugasemd kom fyrst fram í hv. Nd., er fjáraukalagafrv. var þar til umræðu. En þá voru stjórnarskiftin orðin, og gat jeg því ekki svarað athugasemdinni þar. Jeg vildi aðeins vekja athygli hv. deildar á því, að jeg gat þess á síðasta þingi, að stjórnin hefði ekki komist hjá því að láta húsameistara fá aðstoð við störf sín. Var meiningin, að kostnaðurinn við þá aðstoð yrði aðallega greiddur af því fje, er hann fengi fyrir ýms störf, sem hann ynni fyrir aðra en ríkið, t. d. Landsbankabygginguna. Mundi það meira en nóg til þess að greiða þennan kostnað. Skal jeg geta þess, að hv. fjvn. hefir verið afhent skýrsla um störf húsameistara. Hefir hann, eins og skýrslan ber með sjer, haft mörg störf á hendi fyrir hið opinbera, sjerstaklega samkvæmt lögum um skipun kauptúna og sjávarþorpa, og hefir farið í það mikill tími. Var því aðstoðin nauðsynleg. Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá benti jeg þinginu í fyrra á, að það væri sjerstaklega auðvelt að fá þennan kostnað endurgreiddan, og álít jeg því ekki ástæðu til að ávíta fyrv. stjórn fyrir þetta. Jeg skal ennfremur geta þess, að jeg sagði húsameistara, að hann hefði þessa aðstoð aðeins þangað til þing kæmi saman. Hvað snertir þessar 1200 kr. til landlæknis til greiðslu ferðakostnaðar, þá get jeg vísað til hv. fjvn. og sjálfs nál. Skal jeg geta þess, að ýmsir hv. nefndarmenn hvöttu stjórnina til að greiða þetta. Sá jeg mjer því fært að gera það, og jeg hygg, að þó að hv. fjvn. hafi komið sjer saman um að átelja stjórnina fyrir þetta, þá vona jeg, að hv. deild sjái, að stjórnin gat ekki annað gert en greitt þetta.