27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (3501)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Sveinn Ólafsson:

Jeg bjóst ekki við jafnmiklum hávaða út af því, sem jeg sagði, eins og raun hefir á orðið. Jeg mun reyna að halda mjer við efnið og fara ekki langt út fyrir það.

Nokkrir hv. þm. hafa skrifað undir hver með öðrum, eins og þeir kveða að orði, tekið það sama upp, og get jeg því svarað þeim öllum í einu lagi.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) hafði orð fyrir þeim öllum. Margt sagði hann og furðanlegt, og það meðal annars, að atvinnuleysið og bjargarskortinn væri nú svo mikill í Hafnarfirði, og átakanlegur, að grípa yrði til alveg sjerstakra ráða. Finst mjer ekki, að svo þurfi að vera. Vertíðin er best þennan tíma árs. Og á þessum stað eru og menn, sem mega sín mikils og hafa jafnvel fje til skipakaupa, svo hundruðum þúsunda skiftir, eftir greinargerð frv., þó þeir kjósi eðlilega fremur að fá ½ milj. kr. úr ríkissjóði til þeirra. Jeg ætla, að þörfin sje öllu meiri annarsstaðar. Hv. þm. vill með þessu kaupa burtu leppana, reisa skorður við, að leppuð verði útlend fyrirtæki, að því er mjer skildist bæði í nútíð og framtíð.

Jeg held, að leppmenskan sje orðin svo rótgróin, að meira þurfi en miljón kr. til að útrýma henni, og að ekki yrði við henni gert, þó Hafnfirðingar fengju færi á að eignast 1–2 togara.

Sami hv. þm. (JörB) ljet mjög mikið yfir því, hvað hann vildi mikið til þess vinna að fólkið flytti ekki úr sveitunum í kaupstaðina. Er hann að því leyti mjer sammála. En mjer virðist hann koma óþægilega í baksegl við sjálfan sig með því að leggja með þessu frv., sem hlýtur að ýta undir flutning þess, því hjer fer einn kaupstaðurinn fram á það, að fá stórfje til að smala að sjer fólki. Og þó þetta sje eini kaupstaðurinn í ár, má búast við að 2–3 komi á næsta þingi, því aðlaðandi er það fyrir þá að mega eiga von á því, að ríkissjóður hlaupi svona undir baggann með þeim, til þess að koma á fót meiriháttar fyrirtækjum og styðja braskið.

Hv. þm. (JörB) vildi koma því inn í skilning minn og vitund, að engin hætta myndi stafa af þessu. Hann lagði mikla áherslu á orðið von, í því sambandi. Hann kvaðst vona, að þetta leiddi ekki til óhappa. Jeg vil ekki efast um, að von hans geti ræst, þótt völt sje. En jeg vil benda á einn möguleika til óhappa í þessu sambandi. Komið gæti fyrir, að Englendingar tolluðu ísfiskinn eða legðu stein í götu útgerðarinnar, af því að þeim virtist íslensku fiskiveiðalöggjöfinni helsti harðlega beitt. Hvað verður þá um togarana? Jeg ætla ekki að spá neinum hrakspám, en möguleiki er fyrir því, að Englendingar þrengi að þessum markaði. Slíkt er ekki hægt að sjá fyrir, en nú á tímum hleður hver þjóð skjaldborg um sig eftir mætti. Enginn þarf að ímynda sjer, að þessi togaraútvegur sje svo rótgróinn eða baktrygður, að aldrei reynist stopull. Jeg held einmitt, að þó hann sje fyrirferðarmesti atvinnuvegurinn, þá sje hann sá stopulasti. Ekki hefir hann blómgast hin síðustu ár. Og það er trú alls almennings, að fjárhagsörðugleikarnir sjeu ekki minst því að kenna, hve djarft hefir verið teflt í þeim útvegi. Ætti ríkið því enga hvöt að hafa til þess að baka sjer frekari áhættu hans vegna en komið er.

Að því er snertir stuðning við þetta frv. í von um stuðning við ullariðjufyrirtækið austfirska, sem rætt var hjer í gær, vil jeg segja það, að jeg fer ekki í nein hrossakaup um slíkt. Og mjer þótti fyrir, að hv. 1. þm. N.-M. (HStef) gaf í skyn, að hann myndi styðja þetta frv. með þessa von fyrir augum. Jeg mótmæli með öllu hrossakaupum. Það er fullkomin sannfæring mín, að það sje óforsvaranlegt, að ríkissjóður leggi milj. kr. í togarakaup í Hafnarfirði. Er það bæði áhættumeira en flest annað, sem hann hefir lagt í, og órjettmætt vegna þeirra mörgu, sem synjað er um stuðning. Og það gengur í þá átt að ýta undir óheilbrigt atvinnulíf, en veikja það, sem heilbrigt er.

Jeg lofaði að fara ekki út fyrir efnið, og hefir þó verið gefið fylsta tilefni til þess, því meira hefir verið talað um tóvinnuvjelarnar austanfjalls í þessu sambandi en jeg gaf tilefni til. Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) kom hjer fram eins og spámaður um það, hvernig ullariðjan mundi reynast. og skýrði frá þróun hennar í öðrum löndum. Mjer er fullkomlega eins kunnugt um sögu hennar í Noregi eins og honum. Fyrir stríðið voru þar dúkaverksmiðjur svo að segja á hverju strái, og samkepnin var svo mikil, að þeim lá við hruni. Keppinautar fóru þá að eins og hygnir búmenn; sameinuðu sig nokkrir, og eru þó verksmiðjurnar margar þar ennþá. Það var órökstudd fullyrðing hjá háttv. þm. (JAJ), að hjer ætti að vera ein allsherjar ullarverksmiðja fyrir alt landið; þvílík innantóm slagorð byggjast hvorki á þekkingu eða reynslu frá öðrum þjóðum. Ef vjer ætlum að sækja fyrirmyndir til Noregs, sem næst liggur, þá hygg jeg það láta nærri, að hjer á landi ættu að vera 3 verksmiðjur í hlutfalli við mannfjölda landanna, bygðaskipun og samgöngur.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) skaut þeirri áthugasemd fram, að hann hefði fylgt ullariðjumálinu nauðugur í gær, fundið, að undirbúning vantaði, og því verið hikandi. Hvað átti hann við með undirbúningnum? Fje hefir verið safnað, staðhættir rannsakaðir af sjerfræðingi, og annar undirbúningur hygg jeg að sje miklu meiri en þegar Gefjunn, Iðunn og Álafossverksmiðjan voru settar á stofn. Nú er til reynsla, sem þá var ekki fyrir hendi. Á þeirri reynslu er hægt að byggja, eins og líka hefir verið gert.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) vjek nokkrum orðum að mjer, þó jeg gæfi honum lítið tilefni til þess. Hann sagði, að það mætti ekki skipa fólkinu að fara úr kaupstöðunum, því það kæmist ekki fyrir í sveitunum. Það er nú sitthvað að skipa fólkinu burt úr kaupstöðunum eða að gefa því hvatningu til þess að flytja þangað með þessum fyrirheitum um atvinnu.

Hv. þm. (ÁF) nefndi, að fólk hefði flust í stórum stíl til Hafnarfjarðar í atvinnuleit. Það var svo fyrmeir, að margir sóttu hingað á Suðurland á vertíðinni, og svo er enn. Áður hurfu þessir menn heim að vertíð lokinni. En á þessum síðustu og verstu tímum hafa og sótt hingað margir dugandi menn, sest hjer að, orðið þurfamenn eftir sárfá ár og látið fæðingarhreppinn sjá fyrir sjer. Maður einn úr minni sveit hraustur og vel verki farinn, flutti til Hafnarfjarðar með konu og tveim uppkomnum sonum fyrir skömmu. Virtist hann lifa þar kóngalífi af atvinnunni framan af, enda voru þau 4 fullvinnandi, en von bráðar komu kröfurnar um sveitarstyrk austur, og varð að leggja þessari fjölskyldu talsvert fje, ekki vegna veikinda eða slysa, heldur vegna skólagöngu sonanna og atvinnuleysis í bænum. Og þetta eru engin einsdæmi. Jeg hefi í vasanum erindi frá oddvita einum á Austurlandi, þar sem hann biður um styrk úr landssjóði til að forða hreppi sínum við örbirgð, stafandi af stórhópum af þurfamönnum, sem komnir eru frá Hafnarfirði og öðrum verstöðvum hjer syðra. Hafa þeir verið hjer nokkrar vertíðir, en eru nú sendir heim á sveitina. Tel jeg litla þörf á að styrkja Hafnarfjöð til þess að geyma lausingjalýð á þennan veg, sem síðan verður átthögunum til þyngsla.

Jeg þykist vita, að frv. þetta eigi fram að ganga, svo tilgangslaust er að þrátta um það frekar. En jeg hlaut að lýsa minni skoðun á því, og jeg tel það jafnóforsvaranlegt, hvort fleiri eða færri samþykkja það.