27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (3502)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi aðeins vekja athygli á brtt. á þskj. 192, því jeg held, að það hafi áður verið leitað til bankanna með slíka ábyrgð, sem náði aðeins til innlendra banka, og að það hafi ekki borið neinn árangur. Býst jeg við, að svo fari framvegis, og væri því þýðingarlaust að afgreiða frv. með þessu ákvæði, því að þá kæmi það að engu gagni. En í brtt. minni á þskj. 194 er ekki gert ráð fyrir því, heldur ætlast til, að ábyrgð komi einnig til greina gagnvart erlendum bönkum.

Mikið hefir verið sagt um mál þetta, og væri ef til vill ástæða til að minnast á ýms atriði. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði í sinni fyrri ræðu, að hann fengi ekki skilið í því, að atvinnuleysi ætti sjer stað hjer í Reykjavík. Hann hefði átt að segja, að hann skildi ekkert í, að það þyrfti að vera. (SvÓ: Jeg sagði það.) Þá erum við sammála. En hinsvegar má ekki loka augunum fyrir því, að atvinnuleysi er hjer í stórum stíl, af því að atvinnutækin eru færri en svo, að allir geti haft atvinnu.

Jeg er hv. þm. (SvÓ) sammála um það, að nóg störf eru ógerð í þessu landi, en það er eftir að finna ráð til að framkvæma þau. Það hefir mikið verið talað um ræktun landsins, en það eru litlar horfur á því, að það komist í framkvæmd fyrst um sinn, að nokkuð verulegt verði í því gert, svo æskilegt sem það þó er. En það er helber misskilningur hjá hv. þm., að þó atvinnuvegirnir í Hafnarfirði sjeu auknir, sje verið með því að kaupa menn úr sveitunum eða fjölga fólkinu í Hafnarfirði. Það er ekki einu sinni farið fram á að fjölga atvinnutækjunum svo, að þau verði jafnmörg og fyrir 2 árum. Annars býst jeg við, að okkur beri ekki mikið á milli um þetta mál Þó vil jeg ekki undirskrifa það, að hjer sje verið að kaupa menn af bændum, til að setja þá á kvikmyndahús, knæpur og kaffihús. Og það, sem hv. þm. talaði um siðspillinguna í bæjunum, held jeg að sje orðum aukið.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) lýsti nákvæmlega skoðun sinni á fiskilöggjöfinni. Jeg hefi lítið um hana að segja annað en það, að jeg er henni í flestu algerlega andvígur. Við höfum ekki fjármagn til að halda uppi þeim atvinnuvegum, sem nauðsynlegir eru fyrir afkomu þjóðarinnar. Og hvaðan á aukið fje að koma nema frá útlöndum Jeg álít því þær till. áhættulausar, sem ganga í þá átt að auka atvinnuvegina og afla ríkissjóði tekna, þó fjeð komi erlendis að.

Jeg vil ekki taka undir það hjá hv. þm. (JörB), að sem fyrst sje leitað úrskurðar dómstólanna um það, hvort togaraútgerðin í Hafnarfirði nú sje leyfileg. Jeg tel, að nauðsynlegt sje, að útlendingar stundi hjer veiðar, ef atvinnuleysið á ekki að haldast.

Jeg ætla ekki að fara út í fleira, en vil þó mótmæla því, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði nú að síðustu, að verkamenn lifðu hjer kóngalífi, uns þeir færu á sveitina. Það er tómur misskilningur; verkamenn lifa engu kóngalífi. Sumir kunna að komast þolanlega af um sumarmánuðina, en það er varla hægt að ætlast til, að fjölskyldumenn geti fleytt sjer, þegar atvinnuleysi er marga mánuði vetrarins, og því engin ástæða til að ætla, að þeir leiti til sveitarsjóðs að ófyrirsynju. Þó að finnast kunni dæmi þess, þá er það undantekning, en ekki reglan. Og einstök dæmi sanna ekkert.

Annars stóð jeg upp til þess að minna á brtt. mína á þskj. 194, því jeg óttaðist, að hún ætlaði að lenda í kembingarvjelunum hjer í deildinni.