27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3506)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Tryggvi Þórhallsson:

Tvær fyrirspurnir vildi jeg leyfa mjer að bera fram. Aðra til hæstv. fjrh., sem jeg krefst þó ekki að hann svari við þessa umræðu. Jeg hefi fyrir mitt leyti sterka tilhneigingu til að vera með þessu frv., er hjer liggur fyrir, til að bæta úr atvinnuskorti og auka innlendan atvinnurekstur. En mig langar til að spyrja hæstv. fjrh., hvað það sje, sem hann kallar viðunanlega tryggingu. Það er í mínum augum aðalatriðið, en eins og jeg sagði, krefst jeg ekki svars við þessa umræðu.

Jeg skal ekki lengja tímann með því að draga tóvinnumálin inn í umræðurnar. En hitt atriðið, sem jeg vildi minnast á, er það, að komið hefir fram að stofna sjerstaka búnaðarlánadeild við Landsbankann. Hlutverk hennar ætti að vera að styrkja hinn tryggasta atvinnuveg landsins. Jeg geri nú ráð fyrir, að höfuðástæðan gegn því frv. verði sú, að ekki sje fje fyrir hendi. Þeir, sem bera þetta frv. fram, sem hjer liggur fyrir, telja, að 500 þús. kr. mundu nægja í bráðina.

Út af því vildi jeg bera fram fyrirspurn til hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), hvort hann líti ekki svo á, að ef veita megi ½ milj. til atvinnubóta í Hafnarfirði, að búnaðarlánadeildin geti fengið þessa fjárhæð, sem hún þarf með. Mjer þætti gott að fá að heyra álit hans. Jeg fyrir mitt leyti er þessu hvorutveggja hlyntur, því að í báðum tilfellum er verið að styrkja innlenda atvinnu og framleiðslu. En mjer þætti vænt um að vita, hvort þeir, er fylgja þessu frv., eru jafnsanngjarnir, þegar landbúnaðurinn á í hlut.