21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3511)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Pjetur Ottesen:

Svo sem sagt er frá í greinargerðinni, er fylgir þessu frv., þá skoraðist jeg undan því að gerast meðflutningsmaður þessa frv. Jeg vildi sem sje ganga lengra og koma fram með frv. frá 1922, um að fresta algerlega framkvæmd fræðslulaganna nú um sinn. Það var fjvn., sem kom þá fram með það frv., og stóð hún óskift með því. Vakti þá fyrir nefndinni meðal annars, að mikið fje mætti spara með þessu móti, en þá voru fjárhagserfiðleikarnir áhyggjuefni, þó eigi væri fjárhagur ríkissjóðs komin í jafn óvænt efni sem nú er að verða raunin á að sje. Var svo áætlað, að með þessu yrði sparað um 350 þús. krónur fyrir ríkissjóðinn, á fjárlögunum 1923. Nefndin leit líka svo á, að þetta fyrirkomulag, sem nú ríkir, væri alls ekki heppilegt, enda er síður en að svo sje. Fræðslulög okkar eru, eins og menn vita, sniðin eftir erlendum fyrirmyndum og staðháttum, sem ekki líkjast okkar. Það hefir líka sýnt sig í framkvæmd þeirra, að þau hafa dregið drjúgum úr heimilisfræðslunni, sem er undirstaða og lífæð allrar sannrar mentunar í landinu. Einnig hefir það sýnt sig, að þessar löngu skólasetur hafa veiklandi áhrif á andlegt og líkamlegt atgervi unglinganna. Hafa ýmsir merkir læknar einmitt vakið athygli á þessu, og telja það eitt af áhyggjuefnum síðustu tíma. Yfirleitt hefir reynslan sýnt það, á þessum tíma, sem liðinn er síðan farið var að framkvæma fræðslulögin, að þetta fyrirkomulag er ekki heppilegt. Er því um tvennskonar nauðsyn að ræða hjer, að spara mikið fje, og svo að reisa fræðslufyrirkomulagið á heppilegri og þjóðlegri grundvelli. Meining fjvn. á þinginu 1922 var að veita ríflegan styrk til þessara mála, án þess að binda sig við neitt sjerstakt form. Vildi hún þá jafnframt hækka styrkinn til unglingafræðslunar, því að þegar unglingurinn hefir náð betri þroska, kemur kenslan að meira haldi. En þetta var ekki hægt, á meðan svo miklu fje var varið til bar barnafræðslunnar.

Það er það sama, sem hefir vakað fyrir mjer nú. Ef jeg hefði sjeð mjer fært að koma fram slíkri breytingu, þá myndi jeg nú þegar koma fram með frv. þess efnis.

Jeg þykist þess fullviss, að flestir hv. þm. sjeu mjer sammála í því, að ekki sje síður ástæða til þess nú að draga úr útgjöldum ríkisins en var 1922. Sú ástæða hefir undanfarin ár verið ærið brýn, en aldrei þó sem nú, eftir því, sem komið er á daginn með fjárhaginn. Og það er ekki hjer um neina smáræðis upphæð að ræða. Eftir því, sem mjer telst til eftir landsreikningunum 1922, þá hefir verið varið til alls skólahaldsins í landinu kr. 1.174.191. Af þessu hafa verið lögbundar kr. 826.257. Af þessari lögbundnu upphæð hafa farið til barnafræðslunar einnar kr. 407.857, — en annar kostnaður við skólana, þar í taldir styrkir o. fl., nam kr. 383.934.

Eins og menn vita, hefir nú verið gripið til þess ráðs að strika út af fjárlögunum meginið af því, sem ekki hefir verið lögbundið, þar á meðal nálega allar upphæðir til verklegra framkvæmda. Er ekkert við því að segja, úr því að nauðsynin knýr. En mjer virðist það tæplega vera samrýmanlegt þessari stefnu, að ekkert sje átt við þennan útgjaldapóst, og að gengið sje framhjá svo stórri upphæð. Lít jeg svo á, að ekki verði komið á sæmilegri rjettingu í fjárlögin, nema gripið sje til þess ráðs að draga eitthvað, og það verulega, úr þessum gífurlega skólakostnaði.

Eins og hv. frsm. (MG) gat um, hefir það nú orðið að samkomulagi hjá meirihluta nefndarinnar að fara þá leið, sem frv. þetta ber með sjer. Hefir hún gripið til þessa ráðs í því skyni að færa nokkuð af kostnaðinum við barnafræðsluna yfir á bæjar- og sveitarfjelögin. Er líklegt, að það dragi til einhvers sparnaðar á kennarahaldinu. Þótt jeg sje því ekki samþykkur að fara þessa leið, sem ekki nær sparnaðartilganginum nema að litlu leyti, þá mun jeg samt, ef annars betra er ekki kostur, greiða frv. atkv. mitt.