06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir rjett að láta það koma fram í umr. um þetta mál, sem jeg sagði í hv. Nd., er málið var rætt þar, að frv. þetta var borið fram af hv. fjhn. í Nd. í samráði við mig og bankana, sjerstaklega Landsbankann, sem hafði sent nefndinni till. um frv., sem gengur lengra en þetta frv. og þó í sömu átt. Aðalákvæði frv. er í 4. gr., þess efnis, að nefndin megi, með samþykki fjármálaráðherra, krefjast þess, að sjer verði afhentur til umráða sá erlendur gjaldeyrir, sem til er í landinu. Ástæðan til þessa ákvæðis er ekki sú, að álitið sje, að nokkur gjaldeyrir hafi á undan-

förnum árum misfarist, þannig, að hann hafi ekki komið fram í greiðslujöfnuði þjóðarinnar. Hafa stjórnir beggja bankanna fullyrt það afdráttarlaust, að allur gjaldeyrir landsins hafi komið til skila, ýmist til bankanna sjálfra eða verið notaður af eigendunum til þess að borga fyrir innfluttar vörur eða til greiðslu skulda. Þegar svo er, þá er ekki ástæða til neinna þvingunarráðstafana, en það er annar möguleiki hugsanlegur, og hann er sá, að gjaldeyririnn skiftist ekki í hæfilegu hlutfalli milli bankanna, og af þröng annars bankans í því efni gæti leitt fall íslensku krónunnar. Var því þetta ákvæði sett, svo að hið opinbera gæti gert ráðstöfun til þess að afstýra slíku. Jeg mun ekki nota ákvæði 4. gr. nema almenningsþörf krefji. Hv. þm. Vestm. (JJós) bar fram fyrirspurn til stjórnarinnar viðvíkjandi 6. gr. frv., um það, við hvaða gengi ætti að miða gjaldeyrinn, er um yfirfærslu væri að ræða. Hvort miða ætti við það gengi, er var þegar gjaldeyririnn var tekinn, eða það, sem skráð er þegar yfirfærslan fer fram. Jeg geri ráð fyrir, að um það atriði mundi nást samkomulag við hlutaðeigendur í hvert skifti. En takist það ekki, þá verða eigendur að sætta sig við það gengi, sem skráð er á yfirfærslutímanum.