06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (3517)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Sigurður Eggerz:

Jeg get að mestu vísað til þess, sem jeg tók fram áðan, en út af athugasemd hæstv. atvrh. (MG) og hv. þm. Vestm. (JJós), um að gjaldeyririnn hafi stundum áður farið fram hjá bönkunum, vildi jeg taka fram, að ástæðan til þess var sú, að bankarnir yfirfærðu þá aðeins mjög takmarkað og gáfu lítið fyrir gjaldeyrinn. Þeir, sem ekki fengu þá yfirfært í bönkunum, sneru sjer beint til gjaldeyrishafans og buðu honum hærra verð fyrir gjaldeyrinn en bankarnir. Smátt og smátt fór svo mikill hluti af gjaldeyrisversluninni framhjá bönkunum, og verðið fyrir utan bankana hagaði sjer alveg eftir eftirspurninni. Það var því ekki nema eðlilegt, að þeir, sem sterlingspund áttu, leituðu þangað, sem þeir gátu fengið mest fyrir peninga sína. En nú er yfirfært fyrir alla og best að versla með gjaldeyrinn við bankana. Því er það, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, að bankarnir fá nú allan gjaldeyrinn, og því sýnast einmitt þessar ráðstafanir ónauðsynlegar. Jeg er því hræddur um, ef til nauðungarráðstafana kemur, að þá sje líklegt, ef verðið verður ákveðið lágt á sterlingspundi, — og eigendumir verða illa úti —, að þeir reyni til þess að draga gjaldeyrinn undan bönkunum. Það er auðvitað allhart frá sjónarmiði hins frjálsa viðskiftalífs, að þeir, sem taka eiga gjaldeyrinn með valdi, skuli einnig verðleggja hann. Af þessum ástæðum er jeg ákveðinn á móti nauðungarráðstöfunum frumvarpsins, enda greiði jeg atkvæði gegn því vegna þeirra. Jeg hefi hinsvegar ekkert við það að athuga, þó að landsstjórnin vilji fylgjast með gengisráðstöfununum, en jeg vona, að stjórnin vandi vel valið á þeim manni, sem hún á að skipa í nefndina, því að það skiftir mjög miklu máli. Jeg hefi nú gert grein fyrir afstöðu minni til frv. En hvað þá aðalástæðu snertir, sem hæstv. fjrh. gat um fyrir frv., að ske kynni, að annar bankanna yrði harðara úti um gjaldeyri en hinn, þá vona jeg, þar sem samvinna milli bankanna er mjög góð, að þeir muni hvor um sig skoða það sem skyldu sína að hjálpa hinum í þessu efni, ef hægt er. Veit jeg, að bankastjórn Íslandsbanka mundi hjálpa Landsbankanum um þann gjaldeyri, sem Íslandsbanki gæti verið án. Og jeg geri ráð fyrir, að sama væri tilfellið með stjórn Landsbankans. Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, enda býst jeg ekki við, að það hafi mikla þýðingu.