28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

2. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg hefi lítið að segja um frv. þetta umfram það, sem stendur í nál. Jeg skal geta þess, að því hefir verið hreyft við mig, að betur hefði farið á því, að þetta frv. væri látið verða samferða reikningslagafrv. Nefndin áleit, að það gerði ekkert til, þó að þetta frv. væri tekið sjerstaklega, þar sem það virtist ekki gefa tilefni til athugasemda, en það, sem kynni að þykja athugavert við landsreikninginn, færi betur á, að kæmi fram í umræðunum um hann.

Í nál. er gerð full grein fyrir brtt. nefndarinnar, og skal jeg engu við það bæta. Það verður auðvitað jafnan álitamál, hvaða umframgreiðslur eigi að taka upp í fjáraukalög og hverjum megi sleppa. Ef lagabókstafnum væri fylgt stranglega, ætti að taka upp allar umframgreiðslur, en það hefir ekki verið venja, og hefir nefndin því ekki tekið upp þá reglu. Því síður þykir nefndinni ástæða til þess, sem ekki er siður að áætla í fjárlögum fyrir stórfeldum upphæðum, sem fyrirfram er vitanlegt, að greiða verður eftir sjerstökum lögum. Í landsreikningnum er altaf allstór upphæð í sjerstakri grein, sem ekkert er ætlað fyrir í fjárlögunum. Fjhn. hefir vikið að þessu í sambandi við annað mál og skotið því til hv. fjvn., hvort ekki væri rjett að áætla í fjárlögum fyrir þessum greiðslum. Þegar svo væri komið, að öll slík gjöld væru tekin upp í fjárlög, gæti komið til álita, hvort ekki væri rjett að taka allar umframgreiðslur og gjöld samkvæmt sjerstökum lögum í fjáraukalögin. En meðan það er ekki gert, sjer nefndin ekki ástæðu til að taka þetta upp í fjáraukalög.

Annars má altaf deila um það, í hverjum tilfellum er rjett að taka upp í fjáraukalög þær greiðslur, sem eru umfram það, sem áætlað er í fjárlögum. Fyrst og fremst getur það verið deiluefni, hvaða upphæðir eru áætlunarupphæðir, og er í brtt. nefndarinnar að vísu um margar slíkar upphæðir að ræða. Yfirleitt taldi nefndin rjett, þar sem slíkur ágreiningur hafði orðið milli stjórnarinnar og yfrskoðunarmanna landsreikninganna, að fylgja því, sem lengra færi, og voru það í þetta sinn tillögur yfirskoðunarmanna. En hinsvegar verður því þá ekki neitað, að alveg eins hefði mátt taka aðrar upphæðir í lögin. — Sje jeg svo ekki þörf að gera frekari grein fyrir þessu máli.