28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi á undan förnum þingum komið fram með till. um að fella algerlega niður nokkra af tollum þeim, sem nú er farið fram á að hækka, og vil jeg þar nefna t. d. sykurtollinn og kaffitollinn. Voru undirtektar þm. góðar í orði og viðurkendu flestir, að þessir tollar kæmu harðast niður á fátæku fólki og að þeir væru ranglátir. En þrátt fyrir þetta náðu þessar breytingar ekki fram að ganga.

Þegar sykurtollurinn var hækkaður síðast, þá var það látið í veðri vaka, að sú hækkun væri aðeins fyrst um sinn. En sykurtollurinn stendur enn. Og nú er m. a. farið fram á að hækka hann um 25%. Það er því engin furða, þótt jeg mæli á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga. Og jeg er ekki viss um, að hv. þm. í hjarta sínu líti svo á, að þetta verði nokkur bót fyrir fjárhag landsins í heild sinni, þótt samþykt yrði. Vel má að því gæta, að hjer er ekki einungis um þá hækkun á þessum vörum að ræða, sem tollinum nemur, heldur einnig álag kaupmanna á tollinn. í ástæðum frv. er gert ráð fyrir tekjum af þessari tollhækkun um ½ milj. kr., eða jafnvel 700 þús. kr. Það, sem landsmenn þurfa því að borga vegna tollsins, verður að minsta kosti 25% hærra. Og það er fátækasti hluti þjóðarinnar, verkalýðurinn, sem verður að bera meginhlutann af þessari hækkun. Jeg man eftir því, þegar núverandi stjórn tók við völdum, þá sagði hæstv. forsætisráðherra í prógramræðu sinni, að fyrsta verk stjórnarinnar myndi verða að hækka gengi íslensku krónunnar. Þetta hefir nú farið á annan veg, því að gengi íslensku krónunnar hefir stórum lækkað síðan. Má vel setja gengismálið í samband við þessa tollhækkun, því í ástæðum frv. er það sagt, að tollhækkunin sje komin fram vegna verðfalls ísl. peninga. En það verður aldrei ráðin langvinn bót á hag ríkissjóðs, ef ekki er hægt að stöðva gengi krónunnar. Og það verður ekki gert á annan hátt en með því að efla atvinnu bæði til lands og sjávar. Ef mikill hluti þjóðarinnar hefir ekkert að gera, þá verður kaupgeta hennar og gjaldþol aldrei mikið. Nei, slík ráð sem þessi tollhækkun eru einskis virði. Ef ekkert verulegt er gert til þess að stöðva verðfall krónunnar, þá verða tekjur þær, sem þannig er aflað, eins og krækiber í ámu. Þótt nú væru heimtaðir 25% hærri skattar, þá getur vel svo farið, að ríkissjóður verði í jafnmiklu hraki þegar skuldirnar falla, vegna verðfalls krónunnar. Hæstv. ráðherra (KlJ) hefir tekið til samanburðar tolla hjá nokkrum Norðurlandaþjóðum og borið það saman við þá tolla, sem við yrðum eftir þessu frv. að greiða. En sá samanburður er villandi, því þar kemur líka til greina kaupgjald í þessum löndum og kaupgeta almennings. Og svo mun í sumum þeim löndum, sem nefnd eru, vera allmikil framleiðsla á sykri, t. d. í Svíþjóð og vafalaust víðar.

Jeg mun nú greiða atkvæði á móti frv. vegna þess, að hjer er verið að taka frá þeim, sem minst eiga. Vona jeg, að hv. Alþingi láti því ekki í tje samþykki sitt. Að minsta kosti ætti fyrst að sjá um, að fólkið fengi eitthvað að gera, áður en lagðar eru á það svo þungar skattabyrðar.