28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg stend upp vegna sjerstaks tilefnis, sem sje út af brtt. á þskj. 67, þótt hún að vísu komi ekki nú til umræðu. Í henni er farið fram á, að þessi 25% gengisviðauki við innheimtu tolla og gjalda nái ekki til vörutolls af kolum og salti.

Ákveðinn tilgangur liggur augsýnilega bak við till. þessa, sá, að ljetta aukagjöldum af sjávarútveginum. En þótt jeg leggist ekki á móti því, vildi jeg beina því til hv. fjhn., sem væntanlega fær málið til athugunar, hvort ekki muni varhugavert að veita einstökum atvinnurekendum undanþágu frá álögum þessum. Því ef gengið væri inn á þessa undanþágubraut, mætti líta á margt annað en það, sem brtt. nefnir.

Jeg vil t. d. nefna kjöttunnurnar. Bændur þurfa nú að borga afarmikla tolla af tunnum þeim, er þeir nota undir kjöt það, sem út er flutt. Svo mætti og benda á ýmsar fóðurtegundir, svo sem kraftfóður; eins útlendan áburð til ræktunar jarðarinnar. Mætti ekki eins veita bændum undanþágu frá gengisviðaukanum á tolli þeim, er hvílir á vörum þessum, eins og sjávarútvegsmönnum á salttolli? Ef farið verður inn á þá braut, verða undanþágurnar vísast fleiri en kol og salt.

Jeg verð að líta svo á, að vörutollslögin hvíli á rjettlátum grundvelli, og sje því ekki um annað að ræða en að gengisviðaukinn gangi jafnt yfir alt og alla. Þeir, sem ekki líta svo á, hljóta að álíta, að grundvöllurinn, sem frv. stendur á, sje rangur.

Það var aðeins þetta, sem jeg vildi beina til hv. fjhn.