28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal fyrir mitt leyti ekki lengja umræðurnar. Jeg viðurkenni viðleitni hæstv. stjórnar um að reyna að rjetta við hag ríkissjóðs. Má vel vera, að grípa þurfi til nýrra skattaálagninga. Þó er sú leið tæpast fær nema brýn nauðsyn beri til. Nú eru gjöldin svo há til opinberra þarfa, að óviðunandi er, að þetta ástand haldist lengi. Hinsvegar er ekki annað hægt en að viðurkenna fjárhagserfiðleika ríkissjóðs. Ef mönnum lýst óhjákvæmilegt að hækka gjöld til ríkissjóðs til að verja landið fjárþroti, mun jeg í því efni teygja mig svo langt, sem mjer er auðið, en þó með því skilyrði, að hv. Alþingi sýni í öðru fylstu viðleitni til að draga út útgjöldum ríkissjóðs og geri aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að rjetta við gengi íslensku krónunnar. En jeg hygg, að ekki eigi hvað sísta sök á því, hvað peningar vorir standa illa, sú óhæfilega eyðsla, sem nú viðgengst í innkaupum á vörum, sem þjóðin getur vel verið án.

Jeg ætla, að það myndi þjóðinni hollara, að ekki væri hrúgað eins miklu af ýmsum vörum inn í landið og nú er gert, og mætti jafnvel takmarka innflutning sumra vörutegunda, sem teljast til nauðsynja. Væri best, að ekkert yrði aðflutt annað en það, sem þarf til lífsviðurhalds og atvinnuveganna — alt annað hreint og beint bannað að flytja inn í landið. Ef hv. Alþingi gerir þær ráðstafanir, sem að haldi koma í þessu efni, get jeg verið með nýrri skattaálagningu, ef mönnum sýnist það algerlega óumflýjanlegt. En eigi áfram að líðast, að allskonar skrani sje hrúgað inn í landið fyrir svo skiftir mörgum miljónum króna, verð jeg á móti allri tollhækkun. Þeir, sem standa á móti innflutningshöftunum, beri þá ábyrgðina.

Að því er vikið í frv., að hækkunin á einstökum vörutegundum sje jafnvel minni en tíðkast erlendis. En eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) gat um, er það kaupgeta fólksins, sem líta verður hjer á, og eins það, hvað mikið er framleitt í landinu og hve mikið þarf að flytja inn. Að því leyti stöndum vjer Íslendingar verst að vígi af Norðurlandaþjóðunum; við þurfum mest á erlendum vörum að halda, og dugir því ekki að bera saman tollaupphæðina hjer og erlendis. Og gæta verður þess, að því hærri sem tollarnir eru á aðfluttu nauðsynjavörunum, því ver koma þeir efnahag þeirra manna, er mörgum hafa fyrir að sjá. Verður því að hafa fylstu varkárni í þessu efni.

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) talaði um, að þetta mál yrði að afgreiða fljótt, því að annars sæju kaupmenn sjer leik á borði til að flytja vörurnar áður inn í landið en frv. kæmist í framkvæmd. Jeg er því sammála, en sje ekki síður ástæðu til að taka strax til meðferðar það, sem jeg drap á um innflutning á allskonar óþarfa. Það er ekki síður nauðsyn, að það sje tekið til meðferðar en þetta mál, og hv. þm. er skylt að taka sem fyrst ákvörðun í því máli. Jeg mun því láta mjer hægt um þetta frv. þar til sjeð verður, hvernig þingið snýst í viðskiftamálunum.