28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Ágúst Flygenring:

Það var út af einu atriði í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ), sem jeg vildi gera stutta athugasemd. Hann sagði, að gera yrði ráð fyrir því, að allir tollar væru bygðir á rjettlátum grundvelli og gengju jafnt yfir alla.

Jeg hefi aðra skoðun um þetta, en skal þó ekki ræða það nánar, því að það mál liggur ekki hjer fyrir. Aðeins vil jeg taka fram, að þegar menn verða varir við misrjetti við samanburð á tollum á ýmsum vörum, er það skylda þingsins að reyna að lagfæra það. Og þegar er að ræða um jafnmikla hækkun á öllum tollum, sem hjer er farið fram á, blasir kola- og salttollurinn við. Þeir tollar eru nú svo háir í samanburði við aðra, að enginn vegur er til að hækka þá jafnt. Salttollurinn er í raun og veru tollur á íslenskum saltfiski, því að langmestur hluti saltsins er notaður í fisk. Þegar nú þess er gætt, að útflutningsgjald af fiski er sexfalt við það, sem það var fyrir nokkrum árum, er það ljóst, að þessi tvöfaldi tollur hlýtur að hvíla mjög þungt á saltfisksframleiðslunni, sem er undirstaðan undir öðrum aðalatvinnuvegi landsins.

Fyrst þegar kolatollurinn var hækkaður, var það gert með nokkru tilliti til þess, að mestöll kolaverslunin var við útlendinga, Frakka og Englendinga, og sumpart í höndum þeirra; þannig greiddu þeir mikið eða mest af tollinum. En nú er þetta breytt og snýr kolatollurinn nú eingöngu að oss, hvílir á sjávarútgerðinni og kaupstaðabúum, sem bera langstærstar byrðarnar einnig af öllum öðrum sköttum. Jeg vil því benda hv. fjhn. á, að full rök liggja til þess, að þetta aukagjald eigi ekki að leggja á kol og salt.