28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Þorláksson:

Jeg vil einungis leiðrjetta þá missögn hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að jeg hafi átt frumkvæði að lögunum um skipun eftirlitsmanns með bönkum og sparisjóðum. Þetta er svo alkunnugt og svo stutt síðan það gerðist, að óþarft ætti að vera að skýra frá því aftur. Frv. var samið af hæstv. forsrh. (SE), og beiddi hann allshn. að flytja það, svo að ekki þyrfti að eyða tíma og fje í að síma konungi frv. og fá samþykki hans til að leggja það fyrir sem stjfrv. Nefndin vildi ekki sinna þessu, og ljeði jeg þá nafn mitt sem flm., til þess að spara stjórninni ómak, en ríkissjóði fje. Þessu var lýst yfir á síðasta þingi í áheyrn alls þingheims, þar á meðal hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Jeg verð að segja það, að ekki mun mikið að marka frásagnir hans um það, sem gerist á þingi, fyrst hann er svona gleyminn á það, sem gerðist fyrir tæpu ári.