15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Jeg mun ekki tala langt mál. Mönnum er þegar kunnugt, að nefndin hefir klofnað, og get jeg að mestu leyti vísað til nál. minni hlutans á þskj. 119. Jeg vildi aðeins benda á, hver stefnumunurinn er í raun og veru. Allir eru nokkurn veginn samdóma um, að þörf er fyrir ríkið að auka tekjur sínar, en mjer virðist sem hv. meiri hluti líti of einhliða á þörf ríkissjóðs, en loki augunum fyrir getu og gjaldþoli þjóðarinnar eða einstaklinganna og ranglæti þessa skattstofns. Minni hlutinn metur þörf ríkisins ekki eins einhliða, heldur tekur tillit til ástands atvinnulífsins yfirleitt, ógreiðs hags almennings og ranglæti skattstofnsins. Hækkaðir skattar og aukin útgjöld á almenning leiða af sjer meiri dýrtíð, gera mönnum ógreiðara að bjarga sjer og auka atvinnuskortinn.

Minni hlutinn gerir ráð fyrir, að skatturinn innheimtist; tvísýnt er þó, hvort það verður að öllu leyti, en þó svo yrði, þá myndi skatturinn verka móti hag ríkissjóðs og heildarinnar, því að hann leiddi að líkindum til aukins fjárhagslegs ósjálfstæðis einstaklinganna, og þá aftur til aukinna útgjalda eða opinberlegs kostnaðar, sem honum svaraði, eða meira.

Háttv. frsm. meiri hl. (JÞ) viðurkendi, að almenningi væri þegar ofþyngt með skattaálagningum, en hv. meiri hl. virðist ganga út frá því, að einstaklingarnir sjeu sterkari en heildin. Minni hl. telur gagnstætt heildina sterkari en einstaklinginn, enda byggist allur fjelagsskapur á því, hvort sem um er að ræða einkafjelög eða ríkið sjálft eða minni deildir, eins og sýslufjelög, sveitar- og bæjarfjelög; þau hafa öll skapast til styrktar einstaklingnum.

Eins og jeg gat um í upphafi, virðist hv. meiri hl. líta of einhliða á tekjur ríkissjóðs; hann vill styrkja yfirbygginguna án tillits til, hvernig grundvöllurinn er og þó að það geti orðið til að rjúfa eða veikja grundvöllinn enn meir. Minni hl. álítur, að fyrst beri að styrkja grunninn. í nál. á þskj. 114 vill hv. meiri hl. láta líta svo út, sem skatturinn sje lágur, með því að reikna hann sem hundraðsgjald af verði varanna. Við höfum aldrei haldið því fram, að hann væri hár, en gæta verður þess, að gjaldendum verður hann hærri en ákveðið er, því að hann hlýtur að innheimtast með nokkru álagi. Það virðist sem hv. meiri hl. gleymi því, að eins og ástandið er nú til lands og sjávar, þýða auknar álögur sama og aukið tap og skuldir og leiða til þess, að dregur úr framleiðslunni, en atvinnuleysi og fjárhagslegt ósjálfstæði eykst.

Ef þessari stefnu verður fylgt, að leggja altaf meira og meira á gjaldþol þjóðarinnar, án þess að líta á það, hvort það getur borið auknar álögur, hlýtur það að leiða til falls. Minni hl. fjhn. er engu að síður samdóma meiri hl., að vjer þurfum að auka tekjur ríkissjóðs, en við viljum að sá tekjuauki sje tekinn þar, sem gjaldþol og kaupgeta er. Það má segja, að stefna meiri hl. sje áframhald af stefnu undanfarandi tíma, þeirri, að auka álögur á þjóðinni, án þess að líta á, hvað þjóðarhagnum sje holt. Þessi stefna á drjúgan þátt í því, að þjóðarhagnum er nú komið eins illa og allir vita. Hún, ásamt gengislækkuninni, veldur mestu um það, að framleiðsla til lands og sjávar ber sig ekki.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið, en legg það á vald hv. deildar, hvernig hún vill með það fara. En ekki veldur sá, er varir.