15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Þar sem jeg hefi lagt þetta frv. fyrir þingið, hefi jeg ekki ástæðu til annars en vera meiri hluta hv. fjhn. þakklátur fyrir meðferð hans á málinu. Jeg þarf því ekki að fjölyrða um málið, en verð þó að segja nokkur orð í tilefni af athugasemdum í nál. beggja nefndarhlutanna.

Meiri hl. heldur því fram, að jafnvel þótt ýtrasta sparnaðar verði gætt, muni útgjöldin á þessu ári verða mun meiri en ráð er fyrir gert í fjárlögum. Jeg get ekki sjeð, að útgjöldin þurfi að fara miklum mun fram úr áætlun, ef dregið er úr framkvæmdum. Nú er í ráði að fresta öllum framkvæmdum á þessu ári, nema nauðsynlegu viðhaldi vega, og eftir skýrslum, sem jeg hefi fengið, mun óhjákvæmilegt að vinna eitthvað að Flóaáveitunni, en sá kostnaður ætti þó ekki að fara mikið fram úr 40 þús. kr. Jeg veit ekki um annað, sem beinlínis er nauðsynlegt að framkvæma á þessu ári, og þessa upphæð mætti fullkomlega spara á öðrum gjaldaliðum.

Það er sjerstaklega einn gjaldaliður, sem er varhugaverður í þessu efni, er hv. meiri hl. minnist á, sem sje kostnaður við berklaveika menn. Það er rjettilega tekið fram í nál., að verði ekki gripið þar í taumana, mun þessi liður fara afarmikið fram úr áætlun. Þetta hefi jeg tekið fram í athugasemdum við fjárlagafrv., að verði engar sjerstakar ráðstafanir gerðar, megi til að þrefalda þann áætlunarlið. Í gildandi fjárlögum eru 75 þús. kr. áætlaðar í þessu skyni, en 100 þús. kr. í fjárlagafrv. fyrir 1925. En árið sem leið varð kostnaðurinn við þetta tæpar 280 þús. kr. og fer óðfluga vaxandi. Jeg er í engum vafa um, að hann verður fullar 300 þús. kr. á þessu ári og 400 þús. kr. á næsta ári. Berklaveikislögin eru þannig úr garði gerð, að það eru einungis örfáir menn í þessu landi, sem ekki geta komist undir þau. Jafnvel þótt menn sjeu allvel efnum búnir, geta þeir samkvæmt lögunum sent nánustu ættingja sína á heilsuhælið á kostnað ríkisins. Eftir því, sem jeg veit best, kostaði ríkið alla sjúklinga á hælinu í fyrra, nema eina 10. Af þessum 10 veitti Heilsuhælisfjelagið 3 styrk, einum 600 kr. og 2 eitthvað minna. Af hinum 7 kostaði líknarfjelag hjer í bænum einn eða tvo, svo að það voru einungis fimm, sem kostuðu sig að öllu leyti sjálfir. Þjóðin getur ekki risið undir þessum útgjöldum, og þótt einstökum mönnum sje þungbært að kosta sjúklinga á hælinu, verða þeir þó að bera eitthvað af þeirri byrti, en nú er tekin frá þeim öll hvöt til þess. Af þessum ástæðum ljet jeg semja frv. síðastliðið haust, sem fer fram á að draga úr þessum kostnaði, og hefir það verið afhent nefnd hjer í þinginu. Vænti jeg þess, að þetta frv. komi fram sem fyrst, svo að þingið geti dæmt um það og ráðið við sig, hvort það vill gera breytingu í þessu efni.

Minni hl. hv. fjhn. er ósamþykkur tollhækkuninni af princip-ástæðum. Hann hallast að beinum sköttum, og er því eðlilega andvígur öllum tollum í sjálfu sjer, og þá auðvitað hækkun á þeim. Jeg er þeim algerlega ósammála í þessu. Þá þykir minni hl. vörutollurinn sjerstaklega órjettlátur, þar sem hann er lagður því nær jafnt á dýrar sem ódýrar vörur og kemur niður jafnt á fátækum sem ríkum. Jeg er samdóma hv. minni hl. um það, að vörutollurinn er óheppilegur, en jeg tel hann aðeins óheppilegan í þeirri mynd sem hann er í. Hann er lagður á eftir þyngd, og því algerlega af handahófi. Til dæmis er sami tollur, 30 aurar, á 50 kg. af kornvöru sem af sama þunga af tómum flöskum. Vörutollurinn ætti ekki að vera þyngdartollur, heldur verðtollur í 6. flokki er. tollurinn t. d. 1 kr. á hvert kg., en í þeim flokki eru vörur úr silfri, gulli, platínu og gimsteinar. Ef gullsmiður flytur inn nokkur hundruð af dýrum hringum, borgar hann brot úr eyri í toll af mörg hundruð króna demantshring. Jeg er því meðmæltur að leggja háan toll á vörur, sem einungis eru luxusvörur. Af gullúri eða hring, sem kostar mörg hundruð krónur, eru nú greiddir nokkrir aurar, í stað þess, að taka mætti marga tugi króna í toll. Í þessu liggur ósanngirnin, og er eiginlega furðulegt, að vörutollurinn skyldi komast á í þessari mynd og fyrirkomulaginu ekki breytt síðar. Þegar þau lög voru fyrst á döfinni hjer á þingi, varð mikill ágreiningur um það, hvort hann skyldi reikna eftir þunga eða verðmæti, en því miður varð hitt ofan á.

Hv. minni hl. leggur áherslu á, að ríkissjóður fyrst og fremst takmarki útgjöld sín. Það eru gerðar tilraunir til þess, en það er ekki einhlítt. Svo sem jeg hefi bent á, eru liðirnir í fjárlagafrv. fyrir árið 1925 að mestu leyti lögboðin útgjöld, og hjerumbil ekkert umfram það. Ef gengi krónunnar heldur áfram að lækka, er það ljóst, að sparnaðurinn einn kemur ekki að haldi. Það er því hörð nauðsyn, sem knýr oss til að auka tekjurnar. Hv. minni hl. kveðst vilja vinna með samnefndarmönnum sínum að því að auka tekjurnar, og vona jeg, að hann geti fundið heppilegri ráð til þess, sem ganga ekki of nálægt þjóðinni. En jeg sje nú sem stendur ekki annað ráð til þess en það, sem hjer er bent á. Það mætti ef til vill breyta vörutollslögunum og gera tollinn að verðtolli, en það er ekki áhlaupaverk. Bæði tekur undirbúningur undir lagasetninguna langan tíma, og eins hin mikla breyting, sem þá yrði á framkvæmdum laganna, svo að þetta verður ekki gert á næstunni.

Jeg skal svo ekki tefja umræðurnar lengur. Það er áríðandi, að málið gangi fljótt fram, og vænti jeg þess, að háttv. deild samþykki nú frv. og að því auðnist að komast gegnum þingið.