15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Björn Líndal:

Jeg skal ekki deila um það, hvort vörutollurinn sje í eðli sínu rjettlátur eða ranglátur, en jeg skal geta þess, að jeg þekki ekkert skattafyrirkomulag, sem jeg tel fyllilega rjettlátt.

Það var hv. frsm. minni hl. (HStef), sem gaf mjer tilefni til að segja nokkur orð. Hann tók það rjettilega fram, að kaupmenn legðu því meir á vörurnar, sem tollurinn væri hærri. En það er bótin, að mestur hluti hækkunarinnar lendir í ríkissjóðnum, og þó að einhver lítill hluti hennar fari í vasa innlendra kaupmanna, virðist mjer ekki ástæða til þess að sjá ofsjónum yfir því. Það er annars einkennilegur hugsunarháttur, sem kemur fram hjá sumum mönnum, að skoða ríkissjóð sem nokkurskonar prívat miljónera, sem ganga megi að og taka peninga frá eftir geðþótta, án þess að sjá honum jafnframt fyrir nægum tekjum. En neyð sú, sem nú er fyrir dyrum, ætti vonandi að sýna þjóðinni, að þetta er ekki rjett og að fje verður ekki ausið úr þeim vasa, frekar en öðrum, nema nægilegt sje látið í hann í staðinn. Þetta skilja hv. þm. væntanlega, því að engum mun vera. það ljúfur leikur að greiða atkv. með tollhækkunum, einkum eins og fjárhag þjóðarinnar er nú komið. En hjá því verður ekki komist, og getur verið mjög hættulegt að slá öllu slíku á frest til morguns.

Það er að vísu rjett hjá hv. frsm. minni hl., að grunnurinn er veikur, sem bygt hefir verið á, en um það tjáir ekki að fárast hjeðan af. Byggingin er þegar reist á grunninum, og ef hann lætur undan, hrynur öll byggingin um leið.

Það er gamalt orðtæki, að „bóndi er bústólpi og bú er landsstólpi.“ En þegar bóndinn getur ekki lengur reist sig undir þeirri byrði, sem lögð er á hann, þá verður að finna ráð til að ljetta hana til þess einmitt að gera honum kleift að bera uppi landsbúskapinn.

Og það er af þessum rökum, að jeg hefi bygt skoðun mína á frv. því, sem hjer liggur fyrir.