15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Ágúst Flygenring:

Jeg get vel, tekið undir það, að ekki sje gaman að fara nú að bæta miklum álögum á menn, eins og fjárhagsástandi manna er varið. Og mjer er ljóst, að það er lífsskilyrði fyrir hverja þjóð að fara sem varlegast í tollalöggjöf sinni og íþyngja engri stjett úr hófi fram. Áður fyr ljetu menn sjer hjer nægja að sníða sjer stakk eftir vexti og leggja ekki meira fje til ýmsra framkvæmda og fyrirtækja en fjárhagur landsins leyfði. En fyrir 10 árum tóku menn að sækja lengra. Afleiðingarnar af því verðum við nú að bera. Og vjer verðum að gera okkur það að góðu, þó að þetta sje ekki skemtileg tollstefna. Og það þykist jeg vita, að enginn maður í hv. fjhn. hefir með glöðu geði gengið að þessu frv. En við verðum allir að leggja mikið á okkur til að rjetta við fjárhag ríkisins og koma honum yfir örðugleikana. Og þó heldur yrði horfið að því að hækka beinu skattana, þá er hæpið, að þeir næðust, og myndu heldur ekki koma rjettlátlega niður.