15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Hv. frsm. minni hl. fjhn. þarf jeg ekki mörgu að svara. Og jeg vil einmitt undirstrika það, sem hann sagði, að stefna sú, sem lýsir sjer í frv., er áframhald af stefnu undanfarandi þinga, en á nokkuð annan hátt en hv. samþm. minn (JakM) vildi vera láta. Frv. er nefnilega afleiðing af því, sem gert hefir verið undanfarin ár. Stefnan hefir verið sú, að hækka útgjöldin ár frá ári, en lítið verið hugsað um það, hvaða hlutfall hefir orðið milli tekna og útgjalda. Með þessu móti hefir árlega orðið stórkostlegur tekjuhalli, og mun hann á síðasta ári ekki verða mikið undir 2 milj. kr. Þær ráðstafanir, sem þingið gerir nú, eiga því að vera síðasti áfanginn á þeirri leið, sem farin hefir verið undanfarið, eða með öðrum orðum, þær eiga að reka endahnútinn á þá stefnu.

Hæstv. fjrh. (KlJ) ljet þá skoðun sína í ljós, að útgjöldin á yfirstandandi ári myndu ekki nema eins miklu og fjhn. hefir áætlað. Það væri auðvitað gleðiefni, ef þær spár hans rættust, en fjhn. vildi ekki að þessu sinni brenna sig á ógætilegum áætlunum. Jeg býst samt við, að ef Alþingi vill samþykkja tekjuaukafrv., þá verði með því móti komið í veg fyrir tekjuhalla á árinu 1924. En hvað sem um það er, þá hefði jeg talið, að ekki væri óráð þó að einhver tekjuafgangur yrði á þessu ári. Það er hvort sem er margreynt, að ríkið getur ekki komist skammlaust af án þess að hafa nokkurt fje í sjóði. Sjerstaklega er þörfin á því oft brýn fyrri hluta árs, meðan tekjur ríkissjóðs af árinu eru enn ekki innheimtar. En slíkt fje er nú svo gersamlega gengið til þurðar, að miklir örðugleikar hafa oft verið á því að halda uppi lögmæltum fjárgreiðslum. Annaðhvort verður því að grípa til þess að taka lán í þessu skyni eða sjá svo um, að tekjuafgangur geti orðið. En hitt á auðvitað ekki að eiga sjer stað, að aflað verði ríflegs tekjuauka í þeim tilgangi, að hægt verði að halda áfram eyðslu síðari ára. Það býst jeg ekki við, að fyrir neinum vaki, heldur hitt, að fá með því móti ríkissjóðnum nauðsynlegt rekstrarfje.

Jeg skal líka taka það fram, að jeg skildi ekki orð hæstv. fjrh. þannig, að hann teldi tekjuafgang ónauðsynlegan. En fjhn. áætlaði 400–500 þús. kr. minkun á fjárlögunum Hinsvegar þorði hún ekki að gera ráð fyrir því, að fjárgreiðslur utan fjárlaganna minkuðu, en það hafa jafnan verið þær, sem steypt hafa fjárhag ríkissjóðs. Hafa þær oftast numið meira en sem svarar tekjuhalla ársins. Því má það ekki villa menn, að fjárlögin sjálf sjeu afgreidd tekjuhallalaust. Þessar fjárgreiðslur hafa numið síðasta ár ca. l½ milj. kr., og eru þó þar með ekki taldar eftirstöðvar af kaupverði Esju. Má vera að ekki verði framhald á öllum þeim greiðslum yfirstandandi ár. En jeg álít þó best að fara varlega. Það getur altaf það komið fyrir, sem færir fram óvissu útgjöldin. Þarf ekki annað en að brýr bili, sem ríkið þarf að endurreisa samkvæmt brúalögunum, eða eitthvað það komi fyrir, sem orsaki, að nýjar framkvæmdir verði óhjákvæmilegar, svo sem fyrirhleðslurnar fyrir Þverá og Markarfljót síðasta ár. Tek jeg þetta aðeins sem dæmi. En jeg vona, að fjhn. muni bera fram tillögur, sem gera það mögulegt að komast hjá tekjuhalla á yfirstandandi ári, ef þær ná samþykki þingsins.

Út af ræðu háttv. samþm. míns (JakM) skal jeg taka það fram, að mjer finst mótstaða hans gegn frv. þessu ofurskiljanleg frá sjónarmiði hans og annara, sem líta svo á, að beinir skattar sjeu betri og heppilegri en tollar. Jeg vil nú ekki fara að rökræða þá skoðun; jeg er henni, í fám orðum sagt, algerlega mótfallinn og býst enda við, að jeg geti betur rökstutt mína skoðun í því efni en hann sína, væri út í þá sálma farið.

Það er algerlega rangt, að ríkissjóður hafi fengið fullkomna gengisuppbót, miðað við tollana eins og þeir voru settir í tolllögunum frá 1911, þó að þeir hafi að vísu verið hækkaðir síðan. Eða hvernig myndi ríkissjóður vera staddur, ef hann hefði fengið greidda í gullkrónum tollana frá 1911? Hann myndi alls ekki hafa komist af með það. Sannleikurinn er sá, að fjölmörgum nýjum útgjaldaliðum hefir verið bætt við síðan, og þarf ekki annað að nefna en vexti og afborganir af lánum, sem nú nema um 2 milj. kr. á ári. Alt eru það nýir liðir, og einhversstaðar verður að taka það fje, sem til þeirra fer. Og það álít jeg ekki verra að gera með hækkuðum tollum heldur en t. d. með útflutningsgjaldi eða beinum sköttum. Enn má þess geta, að sykurtollurinn hefir ekki verið hækkaður síðan 1911, og má því segja, að hann hafi lækkað um helming, miðað við gullgengi, eða um 2/3 eftir almennri breytingu vöruverðsins.

Jeg get vel gengið inn á það, sem sagt hefir verið áður, að það sje ekki með glöðu geði, að fjhn. leggur til, að álögur almennings sjeu þyngdar með þessu móti. En hversu óaðgengilegt sem það annars getur virst að hækka tollana nú, þá er oss fullljóst, að hagur ríkissjóðs krefst þess svo mjög, að ekki verður hjá því komist.

Þá er eftir að minnast á brtt. á þskj. 67, og er skemst frá því að segja, að meiri hl. fjhn. leggur til, að hún verði feld. Er það bæði, að hann álítur, að fleiri slíkar muni á eftir fara, ef þessi eina verður samþykt, og í öðru lagi fanst oss tollhækkunin, sem farið er fram á, svo hófleg, að það sje vel verjandi að láta hana ná til allra vörutegunda. Vil jeg því ráðleggja hv. deild að samþykkja frv. óbreytt, og jeg vildi ekki tefja fyrir því með því að gera við það þær brtt., sem jeg hefði þó gjarnan viljað annars láta fram koma, sbr. nál. Nú er þegar langt um liðið síðan tollhækkunartill. varð heyrinkunn, og enginn vafi er á því, að kaupsýslumenn munu nú hagnýta sjer tímann þar til frv. er afgreitt sem lög, til að viða að sjer birgðum. Því væri æskilegt, að þingið afgreiddi það hið allra bráðasta, og þá helst áður en næstu skip koma frá útlöndum. Og mjer þykir fyrir því, ef fyrirætlun hv. samþm. míns (JakM), um að koma með brtt. við frv. til 3. umr., yrði til að tefja fyrir framgangi þess. Ákjósanlegast hefði verið, að 2. og 3. umr. hefðu getað farið fram báðar sama dag. En þar sem þetta er stjórnarfrv., þá er það hennar að sjá um allan gang þessa máls og leita hófanna hjá hæstv. forseta um að hraða því sem mest.