15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Björn Líndal:

Mjer virtist ástæða til þess að athuga nokkuð ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann vildi telja, að með brtt. um undanþágu á kolum og salti frá hækkuðum tolli væri verið að skjóta þeim efnaðri undan, þeim, sem gætu borgað, en leggja á þá, sem ekki gætu borgað. Honum ætti þó að geta skilist það, að því meiri álögur, sem hvíla á atvinnurekstrinum, því erfiðara er fyrir atvinnurekendur að borga kaupgjald eða auka atvinnutæki sín og veita meiri vinnu. En það er þó sannarlega ekki hægt að bera Íslendingum það yfirleitt á brýn, að þeir sjeu tregir til þess að ráðast í framkvæmdir til þess að auka framleiðsluna. Miklu fremur hefir þeim verið legið á hálsi fyrir það, að þeir færu ekki nógu gætilega.

Þá kom fram ósamræmi hjá sama hv. þm. Hann talaði um það, að með frv. væri aðeins hugsað um að taka peningana þar, sem auðveldast væri að ná í þá. En hinsvegar ætti eftir frv. að taka þá af fátæklingunum, sem ekkert ættu.

Jeg sje nú ekki, hvernig hægt er að taka fje frá þeim, sem ekkert eiga, og því síður getur mjer skilist, að auðveldast sje að taka fje þar. En hvað sem um þetta má segja, get jeg frætt hv. 2. þm. Reykv. á því, að enginn getur aflað sjer auðæfa án sparsemi, eða með öðrum orðum, án þess að eyða minna en hann aflar. En því miður er það mikill hluti þjóðarinnar, sem eyðir nær öllum tekjum sín um, og því er það nauðsynlegt og rjettlátt að ná í ríkissjóð einhverju af þessu eyðslufje, og það er ekki verra, þó að eitthvað af aurum fátækrar alþýðu í Reykjavík fari á ríkissjóðinn en að þeir lendi ella í vasa sumra leiðtoga hennar. Það skal þó tekið fram, að jeg á hjer ekki við hv. 2. þm. Reykv. Annars ætla jeg ekki að fara að verja gerðir hæstv. stjórnar, en mjer skilst þetta frv. vera tilraun af stjórnarinnar hálfu til þess að rjetta hag ríkissjóðs og að það muni jafnframt hafa bætandi áhrif á gengi hinnar íslensku krónu. Jeg lít svo á, að hvert skref, sem stigið er til þess að bæta hag ríkissjóðs, sje jafnframt skref í áttina til þess að hækka gengið.