15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Baldvinsson:

Jeg vil nota tækifærið til þess að svara hv. þm. Str. (TrÞ) straks. Hann fór að bera saman þetta frv. stjórnarinnar við aðferðir þær, sem verkamenn notuðu til þess að fá kaup sitt hækkað, en þar er því til að svara, að verkamenn grípa ekki til þessara ráða fyr en í fulla hnefana, er tekjur þeirra eru orðnar svo lágar, að þeir fá ekki komist af með þær. Og þeir ráða heldur engu um verðfall krónunnar. Stjórnin hefir alt aðra aðstöðu en þeir til þess að ráða um þetta. Þeir hafa heldur ekki svo mikil ráð á þingi, að áhrifa frá þeim gæti að verulegum mun. Og jeg minnist þess, að hv. þm. Str. gekst fyrir hrossakaupum í þingbyrjun til þess að svifta þá fulltrúa, sem í raun og veru var kosinn. Jeg segi auðvitað ekki, að hann hafi gert það móti betri vitund. (Forseti hringir).

Þá talaði hv. þm. Ak. (BL) til mín allvinsamlega, en þó gat hann ekki að því gert að fara með dylgjur nokkrar, sem ekki var hægt að henda reiður á, og ætti því hv. þm. að kveða þar ljósar að orði, svo að ekki verði um vilst, hvað hann á við. Hann reyndi á sama hátt og hv. þm. Str. að láta líta svo út, að þetta væri ósamræmi hjá mjer, er jeg sagði, að með þessu frv. stjórnarinnar væri skattur tekinn af þeim, sem síst væru færir um að gjalda hann, en svo hafi jeg sagt, að skatturinn væri tekinn þaðan, sem auðveldast væri að ná honum inn. En það er ekkert ósamræmi í þessu, ef litið er á það, sem jeg átti við með þessu, — að þessi aðferð stjórnarinnar væri auðveldust leið til þess að ná skattinum inn. Þá talaði hv. þm. Ak. margt um það, að leiðin til viðreisnar væri sparsemi, en að allur fjöldinn eyddi meiru en aflað væri. Jeg hygg nú, að verkalýður þessa lands eyði vart meiru en þörf krefur, en hitt getur vel verið, að hann eyði meiru en hann aflar, og kemur það af því, að atvinna sú, sem verkamenn hafa, gefur ekki þær tekjur, að þær hrökkvi fyrir því, sem þeir þurfa sjer og sínum til framfærslu. Það eru því aðrir en verkamenn, sem eiga þessi skeyti hjá hv. þm. Ak.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. atvrh. (KlJ). Hann er oft allslyngur í orðasennu; en nú tók hann upp gamalt og oft viðhaft ráð, sem sumir nota, er þá brestur rök, — að finna upp á einhverju, sem aldrei hefir verið sagt eða haldið fram, til þess svo að breiða sig út yfir að hrekja það aftur lið fyrir lið. Þetta var einmitt það, sem hæstv. atvrh. gerði. Hann breiddi sig út allmjög og hrakti ástæður þeirra, sem álíta lántöku einu lausnina út úr þessu ástandi. Hvenær nefndi jeg lán? Jeg veit ekki til þess að hafa minst á það í þessu sambandi. En að því leyti, sem jeg mintist á ástæðurnar fyrir hinu lága gengi, varð honum erfiðara fyrir að hrekja þær, sem vonlegt var, og fór þar í hring utan um það mál sem honum var unt.

Hæstv. ráðherra þóttist ekki hafa orðið var við neina tillögu frá mjer til að bæta gengið. En jeg vil aðeins benda á hina ólíku aðstöðu okkar. Hæstv. ráðherra fer með fjármál landsins og hann er yfirmaður bankanna og getur kvatt þá til ráða um þessi mál, og þar að auki hefir stjórnin sjerstaklega lofað að beita sjer fyrir því að hækka gengi íslenskra peninga. En í tíð þessarar stjórnar hefir gengi íslenskrar krónu stórlega fallið. Og fjöldi manna trúir því, að lækkun krónunnar sje alls ekki af eðlilegum ástæðum, heldur að hjer ráði hagsmunir þeirra, sem telja sig hafa hag af þessu.

Hæstv. fjrh. vill, eins og góðra gjaldkera er siður, draga sem mest fje í ríkisfjehirsluna, og skal jeg ekki lá honum það. Hann leggur fyrir þingið fjárlög með ½ miljón kr. tekjuafgangi. En svo kemur hann með þetta frv. og krefst að fá ½–¾ miljón kr. tekjuauka í viðbót. Þarna finst mjer kenna nokkurrar ágengni hjá hæstv. fjrh. og hjá þinginu, ef það samþykkir þetta frv., sem harðast kemur niður á fátækum almenningi. Hæstv. fjrh. afsakar sig með verðfalli dönsku krónunnar, það hafi verið danskir stóreignamenn, sem „spekúlerað“ hafi í verðfalli hennar, og hafi það haft ill áhrif á gengi okkar krónu. Við það hafi hann aldrei getað ráðið. En er hann viss um, að slíkt hafi þurft að vera?

Hæstv. atvrh. vitnaði í grein, sem staðið hafði í Alþýðublaðinu, og þar sem farið var allloflegum orðum um mig. Mjer þykir vænt um, að hæstv. ráðherra hefir tekið eftir þessu, og eins þykir mjer vænt um hitt, sem greinin ber vott um, að jeg nýt fulls trausts míns flokks. Jeg vildi gjarnan, að aðrir gætu sagt hið sama um sjálfa sig, því að þá væri þeim ekki kipt burtu frá hinum æðstu embættum af sínum eigin flokki. En það var aðeins undanskilið í nefndri grein, að jeg ætti að fá frið til þess að vinna að þessum málum og fá völdin í mínar hendur. Jeg má ef til vill taka þetta sem loforð frá hæstv. atvrh. og flokki hans um stuðning til þess að mynda nýja stjóra, og þó það sje raunar ekki einhlítt, tek jeg þetta þó sem góða byrjun, og ætti þá heldur að vera hægara að bæta við.