15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Fjármálaráðherra (KlJ):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hjelt því fram, að þegar verkamenn þyrftu að krefjast launahækkunar, væri það af því, að ilt stjórnarfar væri í landinu. Þetta er ekkert nýtt. Það er gömul og alþekt krafa, að stjórnin eigi að gera alt, og ef eitthvað ber út af, eitthvað fer öðruvísi en menn vilja eða eitthvað óvænt kemur fyrir, er það stjórninni að kenna. Jeg minnist þess, að þegar vjer vorum nýbúnir að fá innlenda stjórn hjer 1904, kom það fyrir, að bátur fórst vestanlands vegna þess að hann var ofhlaðinn. Þá var stjórninni kent um þetta, — hún hafði sem sje ekki hirt um að kenna mönnunum að synda! Jeg þakka að öðru leyti hv. 2. þm. Reykv. lofsyrði hans til mín, fyrir það hversu slyngur ræðumaður jeg sje, en hinu neita jeg, að jeg hafi barist á móti því, sem aldrei hafi verið sagt hjer í þingsalnum. (JBald: Jeg nefndi aldrei lán. Það var hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem talaði um það). Hafi hv. 2. þm. Reykv. ekki nefnt það, hlýtur hann þó að hafa meint það, því að hann hefir ekki, að minni vitund, bent á neitt annað ráð, og mátti því ætla hann sammála hv. 3. þm. Reykv. (JakM) í þessu. Ennfremur heldur háttv. 2. þm. Reykv. því fram, að það sje stjórninni og bönkunum að kenna, hversu ísl. krónan hefir fallið. Jeg get upplýst það, að Íslandsbanki hefir tapað mörg hundr. þús. kr. á gengisfallinu árið sem leið. (JBald: Hann hefir grætt það annarsstaðar. — JÞ: Landsbankinn hefir sömuleiðis tapað á því). Já, Íslandsbanki hefir tapað um 800 þús. kr. og Landsbankinn um ½ miljón kr. Jeg hygg að þessar tölur sjeu ekki fjarri sanni, og liggur í augum uppi, að bankarnir gera þetta ekki að gamni sínu. Að þeir græði þetta annarsstaðar, á öðrum sviðum, hygg jeg vera á engu bygt.

Reikningar bankanna eru ekki til fyrir síðasta ár, en jeg hygg, að gróði þeirra sje ekkert svipaður nú og hann hefir stundum verið áður, ef annars er um nokkurn gróða að ræða. Það verður hvorki stjórn ríkisins nje bankastjórnum kent um gengisfallið. Þeim hefir verið ókleift að gera við því. Þá spurði hv. 2. þm. Reykv. mig um það, hvort hann mætti eiga víst fylgi míns flokks, ef hann tæki að sjer stjórnarmyndun; en þessu get jeg ekki svarað, þar eð þetta hefir alls ekki komið til mála, og því ekki verið rætt á flokksfundum. En komi hann með áreiðanlegt og ábyggilegt ráð gegn gengislækkuninni, skal jeg lofa honum því, að þá má hann eiga mitt eindregið fylgi til þess.