17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Fjármálaráðherra (KlJ):

Jeg gæti að vísu sparað mjer að tala og tekið undir orð hv. frsm. meiri hl. (JÞ). Brtt. þá, sem hv. þm. Barð. (HK) hefir nú afhent skriflega, get jeg vel fallist á, af sömu ástæðum, sem teknar hafa verið fram. Brtt. á þskj. 149 voru boðaðar fyrirfram, og hljóta hv. þm. að vera undir það búnir að greiða atkvæði um þær. Jeg fyrir mitt leyti get ekki sjeð ástæðu til að undanskilja vörutollinn þessari hækkun. Svo sem tekið hefir verið fram, er hann langdrýgsti hluti tollteknanna, eitthvað um 1 milj. kr., og þar sem brtt. fer einnig fram á að undanþiggja sykurtollinn, sem nemur um 400 þús. kr., verða um 1400000 kr., eða helmingur tollanna, sem þetta frv. nær til, teknar undan hækkuninni, ef brtt. verða samþyktar. Frv. þetta verður þá skert svo mjög, að varla virðist ástæða til að halda lengur í það. Að vísu gæti það verið til bóta, svo sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt fram, ef nýtt frv. kæmi um hækkun á nokkrum flokkum vörutollsins. En jeg veit ekki, hvernig slíku frv. mundi verða tekið. Þar sem þetta frv. er nú til 3. umr., verð jeg að leggja til, að það verði samþykt óbreytt að öðru leyti en því, sem hin skriflega brtt. hv. þm. Barð. mælir fyrir. Það hefir enga fjárhagslega þýðingu að undanskilja kornvörur, en jeg gæti trúað, að þessi tollhækkun yrði betur þokkuð meðal almennings, ef þær væru teknar undan.