06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Stjórnarskipti

forsætisráðherra (SE):

Jeg vil leyfa mjer að skýra háttv. deild frá því, að jeg hefi þriðjudaginn 4. mars símað hans hátign konunginum lausnarbeiðni mína.

Tildrög til þessarar ályktunar eru þessi:

Sunnudaginn 24. febr. kom nefnd frá nýstofnuðum Íhaldsflokki þingsins til mín og skýrði mjer frá því, að í flokknum væru 20 þingmenn, og hann væri þannig stærsti flokkur þingsins, og tjáðu þeir sig reiðubúna til þess að taka við stjórninni og óskuðu, að jeg bæði um lausn. Jeg spurði þá um, hvort þeir hefðu meiri hluta þings að baki sjer, en þeir kváðu nei við því. Lýsti jeg þá yfir því, að þótt jeg væri nokkurnveginn ákveðinn með sjálfum mjer um, hvernig bæri að svara þessari málaleitun, þá mundi jeg þó, áður en jeg gæfi nokkurt svar, ráðfæra mig við samverkamann minn í stjórninni, atvinnumálaráðherra Klemens Jónsson, og þann flokk, sem jeg væri í, Sjálfstæðisflokkinn. Jeg skýrði svo samverkamanni mínum á stjórninni frá þessu sama dag. Eftir að hann hafði ráðfært sig við Framsóknarflokkinn, skýrði hann mjer frá, að hann mundi beiðast lausnar úr stjórninni og að flokkur hans óskaði ekki, eins og sakir stæðu nú, að eiga þar mann. Eftir að þessi niðurstaða var fengin, skýrði jeg þeim flokki, sem jeg er í, frá því, að jeg liti svo á, að mín afstaða í þinginu væri orðin svo veik, að ekki væri rjett, að jeg færi með stjórnina, og símaði lausnarbeiðni mína, eins og jeg gat um hjer í upphafi.

Hans hátign konungurinn hefir í gærkvöldi sent mjer eftirfarandi símskeyti, er jeg leyfi mjer hjer með að lesa upp:

„Forsætisráðherra Sigurður Eggerz, Reykjavík.

Eftir að vjer höfum móttekið skeyti yðar, dags. 4. þ. m., veitist yður hjer með sem forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra, og atvinnu- og samgöngumálaráðherra Klemens Jónssyni, er einnig veitir forstöðu fjármálaráðuneytinu, lausn í náð frá ráðherraembættunum, með eftirlaunum samkvæmt lögum vegna fyrri embætta, og óskum vjer jafnframt, að þjer og hann annist embættisverk ráðherranna eins og hingað til, þar til nýtt ráðuneyti verði skipað.

Christian R.“