10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

20. mál, kennaraskóli

Pjetur Ottesen:

Það virðist nú loksins vera svo komið hjer á þingi, að vaknaður sje sannarlegur áhugi á því að gæta með varhuga hinna erfiðu fjárhagsástæðna landsins, og eru líkur til, að viðleitni verði sýnd til þess að draga eitthvað úr útgjöldum ríkissjóðs; eru nú og meiri líkur til þess, að þeirri viðleitni verði nokkru meira ágengt en á undanfarandi þingum. Aðalárangurinn af sparnaðarviðleitni undanfarandi þinga hefir verið sá, að tekist hefir að koma í veg fyrir, að lengra hafi verið farið í áætlunum á útgjöldum ríkissjóðs en áður átti sjer stað. En eins og nú er komið ástandinu, er það ekki nóg að veita aðeins viðnám, heldur verður að gera alvarlegar ráðstafanir til þess að draga allverulega úr útgjöldunum. Þess vegna undraðist jeg, er háttv. stjórn tók það ráð að bera fram öll þessi fræðslumálafrumvörp. Nái þau öll að verða að lögum, getur ekki hjá því farið, að af þeim leiði allverulegur kostnaður fyrir ríkissjóð, og ef miða má við reynslu undanfarandi ára, má gera ráð fyrir, að þótt hjer sje ekki alstaðar stórt af stað farið, geti kostnaðurinn af þessum breytingum á fræðslulögunum orðið allverulegur. Mjer hefði því þótt betur viðeigandi af hæstv. stjórn, sem gerst ætti að vita um fjárhag landsins, að hún hefði komið með tillögur um að draga eitthvað úr þeim mikla kostnaði, sem ríkið hefir af skólarekstrinum og fræðslumálum yfirleitt. En verði þessi stjfrv. öll samþykt, gera þau talsvert til þess að auka á þennan kostnað, og jeg fæ ekki betur sjeð en til þess að fá sæmilega rjetting fjárhagsins í fjárlögum fyrir árið 1925 verði ekki hjá því komist að draga allverulega úr skóla- og fræðslukostnaðinum. Það er rjett hvað þetta frv. snertir, að það eykur lítið kostnað í pappír eða prentun, því það er stutt og er að því leyti ódýrt, og fer yfir höfuð fram á smávægilegan beinan kostnaðarauka. Stjórnin gerir alls ekki ráð fyrir neinum kostnaði af þessu frv.; en nefndin, sem um málið hefir fjallað, treystist þó ekki til þess að taka þar svo fullan munninn og gerir ráð fyrir einhverjum kostnaði af frumvarpinu, ef það yrði að lögum, en gerir þó heldur lítið úr honum. Aftur á móti er gert ráð fyrir talsverðum ávinningi, sem leiða ætti af þeirri breytingu, sem frv. fer fram á, — aðallega það, að menn læri þá ensku í skólanum. Hvað sem nú þessu líður, eru nú 3 fastir kennarar við þennan skóla, og þess vegna ætti þetta ekki að hafa neinn beinan kostnað í för með sjer; en auk þess er allmiklu fje varið til stundakenslu við kennaraskólann, og ef þessi aukna kensla á að koma með stundakenslu, verða það þá bein aukin útgjöld af þessu. Nú er áætlað um 2500 kr. til stundakenslu við skólann á næsta ári, en samkv. landsreikningi 1922, þá var varið þar til stundakenslu á 6. þús. kr., eða alt að 1 þús. kr. á mánuði. En það liggur í augum uppi, að ef það á að fara að innleiða nýja námsgrein við skólann, og fullhlaðið er störfum á þá kennara, sem fyrir eru, hlýtur kostnaðurinn við stundakensluna að aukast, nema bætt sje við nýjum föstum kennara; en það er þá einnig kostnaðarauki. Þetta er sú hlið þessa máls, sem veit að ríkissjóði. Lenging skólatímans hefir og í för með sjer aukinn kostnað, vegna upphitunar og aukinnar umhirðu um skólahúsið. Þá er og á það að líta, að eftir því, sem mjer skildist af ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), þá kom það berlega í ljós hjá honum, að hann teldi kennarana við kennaraskólann illa launaða, en þeir hafa fram að þessu kent aðeins í 6 mánuði af árinu. Af þessu leiðir það, að er launalögin verða tekin til athugunar á næsta þingi, verður þetta notað sem ástæða til frekari launahækkunar handa þessum kennurum. Jeg verð að segja það, að á þingi 1919, sem samdi þessi launalög, var ekki vanrækt að nota minni átyllur en þessi er til að byggja launakröfur á. Hv. þm. V.-Ísf. drap á það við 2. umr. þessa máls, að kennarar kennaraskólans mundu ekki fara fram á launahækkun. Jeg skil þetta þannig, að það muni ekki verða farið fram á slíkt á þessu þingi, enda hefir það ekki áhrif á kensluna á þessum vetri. Enn er ekki talinn allur sá kostnaður, sem leiðir af lenging námstímans: aukinn dvalarkostnaður nemendanna og vinnutap nemenda, sem má reikna til peningaverðs, er þeir verða að vera 7 mánuði við námið, í stað 6 áður. Jeg sje því ekki betur en að frv. þetta sje grímuklætt að því leyti, að það er sagt, að það auki engum kostnað, en leggur þó talsverðar kostnaðarbyrðar bæði á herðar nemenda og ríkissjóðs. Þá kem jeg að ávinningi þeim, sem af enskunáminu leiddi. Það er tekið fram í nál., að við það mundi hinn mikli bókmentaheimur enskumælandi þjóða opnast kennaraefnunum, sem nú er þeim lokaður, og verður því ekki á móti mælt, að þangað má náttúrlega sækja margt gott og þjóð vorri þarflegt. En um leið verður manni að spyrja að því, hvort þessi enskukensla verði nóg til þess, að þeir geti notfært sjer þessa miklu fjársjóði hins enska bókmentaheims. Jeg hefi talað við mann, sem stendur kennaraskólanum nærri og bær er að dæma um þetta mál, og dró hann mjög í efa, að kennararnir, er aðeins hefðu notið þessarar kenslu, mundu verða færir til þess að lesa sjer að gagni vandað enskt mál. Hitt taldi hann líklegt, að þeir mundu geta komist eitthvað niður í ljettum enskum „rómönum“, og við það eitt tel jeg næsta lítið unnið. Jeg hygg því hvorttveggja, að þetta frv. ráði til útgjalda bæði fyrir ríkissjóð og svo vitanlega fyrir nemenduma og að ávinningurinn af enskunáminu verði allhæpinn. En þegar litið er á hina miklu nauðsyn til þess að spara alla hluti, eins og nú stendur á, held jeg, að naumast sje hægt að verja fje fyrir jafnhæpinn ávinning og hjer ræðir um. Vil jeg því leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá um þetta mál, svo hljóðandi:

Með því að ganga má að því vísu, að breyting sú á kennaraskólanum, sem farið er fram á í frv. þessu, mundi verða landinu nokkur kostnaðarauki, ef að lögum yrði, en hinsvegar hæpið, að tilgangur frv. næðist um staðbetri mentun kennaraefna, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.