10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

20. mál, kennaraskóli

Forsætisráðherra (SE):

Þegar þetta mál var til 2. umr., var jeg bundinn við umr. í hv. Ed. og gat því ekki tekið til máls, en mundi þá hafa gripið tækifærið, sem jeg geri nú, til þess að þakka hv. mentmn. fyrir, hversu vel hún hefir tekið í þetta mál. Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Borgf. (PO) endurtek jeg það nú, sem jeg hefi áður sagt, að stjórnin hefir einmitt viljað taka fult tillit til hins þrönga fjárhags og hefir sniðið tillögur sínar í mentamálunum eftir því, og aðeins komið með þær tillögur, sem svo að segja hafa engan aukinn kostnað í för með sjer. Þannig eru tillögurnar um barnafræðsluna; auknu útgjöldin, sem fylgdu frv. mentamálanefndar frá 1920, eru skorin burt.

Milliþinganefndin í mentamálum hefir lagt mikið erfiði inn í starf sitt, og mjer virðist því hart, ef alt starf hennar ætti að leggjast á hilluna og þingið fengi ekki einu sinni tækifæri til að sjá frv. Stjórnin hefir nú farið þá leið að leggja fyrir þingið tvær tillögur nefndarinnar, sem svo að segja engan aukinn kostnað hafa í för með sjer, en fela hinsvegar í sjer endurbætur. Aftur sá stjórnin sjer ekki fært að leggja fyrir frumvarp um lærða skólann, af því að samtímis hefði þá orðið að sjá fyrir gagnfræðamentuninni, en á því eru nú engin tök. Stjórnin sá sjer heldur ekki fært að leggja fyrir frumvarpið um kennaraskólann eins og það kom frá milliþinganefndinni.

Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinum kostnaði, sem nokkru nemur, en hitt er sýnilega lítil hagsýni, þegar búið er að kosta stórfje til þess að gera barnafræðsluna sem best úr garði og veita kennurum launabætur, að reyna þá ekki um leið að gera meiri kröfur til kennaranna. Jeg hefi ætíð verið á þeirri skoðun um barnafræðsluna, að það sje mjög mikils virði fyrir vora þjóð, að hún sje í sem bestu ástandi. Ef litið er til fyrri ára, er alls ekki hægt að bera á móti því, að mentunarástandið er nú margfalt betra en það var áður. Vona jeg því, að frv. fái að ganga greiðlega gegnum þingið, og er jeg þess fullviss, að því betur sem kennarastjett vor verður mentuð, þess meiri vonir getum vjer gert oss um framtíð þjóðar vorrar á komandi tímum. Svo mikils virði er þetta mál.