10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

20. mál, kennaraskóli

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil ekki fara að taka upp almennar fjárhagsumr. nú, því jeg tel það lítinn sparnað að tefja tíma þingsins með því að vefa þær inn í umr. um hvert einasta mál, sem fram er flutt. Jeg vildi aðeins taka það fram, að jeg býst við því, að hv. þm. Borgf. (PO) veiti erfitt að koma eyðsluorði á stjórnina fyrir að hún flutti þetta frv., því það er engin eyðsla samfara því. Gæti hann, ef hann vildi líta rjettum augum á málið, vel sjeð af meðferð frv. um fræðslu barna, hver afstaða stjórnarinnar er. Þar hefir hún numið burt þau ákvæði, sem kostnaði valda ríkissjóðnum. Sama er að segja um aðrar till. stjórnarinnar í kenslumálum. Þær bera allar vitni um eindreginn sparnaðarvilja. — Að því er snertir þetta frv., þá er kostnaðurinn, sem því fylgir, svo sáralítill, að hann tekur ekki tali. Sje jeg, að hv. deild lítur sömu augum á málið, þar sem hún veitir þessu frv. stjórnarinnar svo eindregið fylgi.