14.03.1924
Efri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

20. mál, kennaraskóli

Forsætisráðherra (SE):

Eins og kunnugt er, hefir Alþingi veitt allmikið fje til alþýðumentunar og kennarastjettar landsins yfirleitt. Er ekki hægt að neita því, að margir hafa litið þá fúlgu heldur óhýru hornauga. En jeg vil taka það fram við þetta tækifæri, að jeg hefi altaf litið svo á, að mentun alls almennings í landinu skifti svo miklu máli, að varlega megi fara í það að draga af því fje, sem til hennar gengur.

Þetta frv., sem nú er til umr., fer ekki fram á nein aukin útgjöld. Aðalatriði þess er, að þeim, sem hafa eiga alþýðufræðsluna á hendi, verði veitt víðtækari og betri mentun sjálfum en nú er, með því að lengja námstímann við kennaraskólann og bæta við kenslu í ensku, svo að þeim, sem sækja skólann, verði opnaður aðgangur að hinum enska bókmentaheimi. Frv. er flutt samkv. ákveðnum óskum skólastjóra kennaraskólans og annara kennara hans. Verður þeim því ekki borin eigingirni á brýn, því að störf þeirra aukast, ef frv. verður samþykt, en launakjörum þeirra í engu breytt. Það, sem fyrir þeim vakir, er eingöngu að veita kennaraefnum landsins sem bestan árangur af veru sinni við skólann. Jeg geri ráð fyrir, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til mentmn.