25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

20. mál, kennaraskóli

Einar Árnason:

Jeg ætla mjer ekki að fara að vekja neinar deilur um þetta mál. Mjer finst frv. varla þess vert, að deilt sje um það. En jeg verð aðeins að gera grein fyrir, hvers vegna jeg ætla mjer að greiða atkvæði á móti frv.

Því hefir verið haldið hjer fram, að þetta kosti lítið eða ekkert fje, en þó svo væri, þá eru mörg þýðingarmeiri og alvarlegri mál, sem bíða eftir afgreiðslu, en ekkert komast áleiðis fyrir þessu moldviðri af hjegómamálum. Þetta frv. mætti því gjarnan falla. Það er búið að fella hjer í deildinni ýms frv., sem gengið hafa í sparnaðaráttina, og því ætti ekki að vera ástæða til þess að fara að samþykkja að nauðsynjalausu frv., sem eykur kostnað. Og þó segja megi, að hjer sje ekki um mikinn aukinn kostnað að ræða fyrir ríkissjóð í bili, þá eykur það þó að mun kostnað nemenda, og það eru líka peningar. Jeg vil í þessu sambandi einnig geta þess, sem skólastjóri kennaraskólans segir í erindi sínu til Alþingis um útgjöld til skólans. Hann kemst þar svo að orði:

„Auk þess býst jeg við, ef tillagan um lengingu námstímans í kennaraskólanum nær fram að ganga, að þá verði stundakensla um leið aukin að nokkrum mun.“

Það er því augljóst, að hann gerir ráð fyrir því, að óhjákvæmilegt verði að auka laun skólakennaranna.

Jeg býst svo ekki við að þurfa að gera frekar grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, enda er frv. naumast þess virði, sem pappírinn kostar undir það.