25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

20. mál, kennaraskóli

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. nefnd og hv. frsm. hennar fyrir, hversu vel og af hve miklum skilningi þau hafa tekið þessu máli.

En mjer finst hinsvegar hv. 1. þm. Eyf. líta alt of smáum augum á þetta mál. Það er varið miklu fje úr ríkissjóði — fje, sem sumir sjá mjög ofsjónum yfir — til kennarastjettar þessa lands. En þó virðist vera sjálfsagt að gera sem mestar kröfur til undirbúnings kennaranna undir starf þeirra, þar sem þeim undirbúningi er samfara svo að segja enginn kostnaður. Annars virðist mjer æðimargir á hinu háa Alþingi, sem líta með mjög litlum skilningi á alþýðumentunina í landinu. Og jeg fæ ekki betur sjeð en frumvarp það, sem hv. fjárveitinganefnd flytur, sje rýtingur í bakið á alþýðumentuninni. Því með því er verið að auka útgjöldin á sveitarfjelögunum við alþýðufræðsluna, og sú aukning mundi valda því, að það yrði gert alt víða til þess að losna við kennarana, en þar sem það ekki tekst, mundi mögnuð óánægjan yfir útgjöldunum, og það mundi lenda á alþýðufræðslunni. Jeg hefi tröllatrú á góðri alþýðumentun. Jeg lít svo á, að hún sje ein af þeim lyftistöngum, sem eigi að leiða þjóðina gegnum bjartari lífsmöguleika inn í sterkari framtíð.