25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

20. mál, kennaraskóli

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg hafði varla búist við því, að þessi agnúi, kostnaðaragnúinn, yrði frv. þessu neitt til fyrirstöðu. Jeg tek það trúanlegt, sem hv. mentamálanefnd Nd. segir í nefndaráliti sínu á þingskjali 83, og sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, ætla að lesa upp:

„Kostnaðarauki fyrir ríkissjóð er hverfandi lítill eða sama og enginn af þessum breytingum. Daglegur námstími í hverri deild er svo langur, að ekki verður á það bætt, enda auðvelt að draga af öðrum námsgreinum, sem nemur því, er varið verður til enskukenslunnar, þar sem hert hefir verið á inntökuskilyrðunum. Kostnaður við ræsting, ljós og hita verður því sem næst hinn sami og verið hefir, því að æfingaskóli kennaraskólans hefir jafnan staðið frá 1. okt til 15. maí. Námskostnaður nemenda eykst að vísu nokkuð, en þó ekki yfirleitt sem nemur dvalarkostnaði og atvinnumissi í einn mánuð, því að bæði er 1.–20. okt. verðlítill tími fyrir þá, sem vinna fyrir kaupi, og oft stendur svo á ferðum, að nemendur verða að koma á líkum tíma til Reykjavíkur og nemendur annara skóla, sem byrja 1. október.“

Jeg get fyllilega tekið undir þetta. Og jeg er kunnugri því en margir aðrir, hversu þessu er farið, og veit það, að nemendur allra skóla hjer í bæ munu oftast verða að sæta sömu ferðum til Reykjavíkur, og kennaraskólanemendur munu því verða að sæta sama kostnaði og aðrir. Auðvitað má búast við því, að einhver dálítill aukakostnaður verði af þessu, en í það virðist ekki horfandi, svo framarlega sem vjer viljum viðurkenna, að menning er máttur. Mjer finst það heldur ekki einskisvirði, að kennaraefni þjóðarinnar fái tækifæri til að læra ensku, því með því fá þeir lykil að hinum auðugu bókmentum Englendinga, einkum þegar þess er gætt, að flestir, sem koma í þennan skóla, eru mjög fróðleiksfúsir og láta ekki undir höfuð leggjast að nota sem best námstíma sinn og kenslu þá, sem þeir eiga kost á. Jeg sje engan agnúa á þessu hvað kostnaðinn snertir, því kennarar skólans munu ekki krefjast neinnar aukaþóknunar, þótt námstíminn yrði lengdur þetta, og ef svo færi, að þeir gerðu það seinna, þá er nógur tími að tala um það þá, en eins og stendur sje jeg enga hættu á ferðum.