07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

18. mál, afhending á landi til kirkjugarðs í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Allshn. hefir ekki orðið sammála um þetta mál, og gerir meiri hl. nefndarinnar nánari grein fyrir skoðun sinni á þskj. 79. Það er engin önnur ástæða til fyrir tilorðning þessa frv. en sú, að kirkjueiganda í Reykjavík, þ. e. ríkissjóði, hefir orðið stækkun kirkjugarðsins óhæfilega dýr. Er það ekki fyrir þá sök, að landið hafi í upphafi verið keypt við of dýru verði, heldur af því, að land þetta hefir reynst mjög óhæft til graftar. Jarðvegurinn hefir reynst alt of grunnur, og hefir verið ráðin bót á því með því að fylla þar upp og hækka jarðveginn, en því hefir fylgt mjög mikill kostnaður.

Hjer á landi var legkaup numið úr lögum með lögum um sóknargjöld árið 1909, en þegar þetta kom til, var legkaup aftur leitt í lög með lögum frá 1915, en þó aðeins að því er snertir Reykjavíkurbæ. Var það gert til þess að ljetta kostnaði af kirkjueiganda (ríkissjóði), sem leiddi af stækkun kirkjugarðsins í Reykjavík. Nú er með þessu frv. farið fram á að hækka þetta gjald, sem er alveg einstakt í sinni röð hjer á landi, svo mjög, að það á að margfalda með 2½ af ástæðum þeim, sem að framan var sagt — kostnaðinum við stækkun kirkjugarðsins. Það er bæði, að þetta er óvenjulegt hjer og miður sanngjarnt, að sóknarmenn sjeu látnir greiða þann aukakostnað, er kirkjueigandi þarf að ráðast í, og ekki síst fyrir þá sök, að rjettur málsvari sóknarmanna í þessu máli, bæjarstjórn Reykjavíkur, benti stjórninni á það í tæka tíð, að þetta land væri óhæft til notkunar fyrir grafreit og mótmælti kaupunum af þeim ástæðum. En kirkjueigandi keypti landið samt, og ætti það því að vera rjettmætt, að hann bæri sjálfur hallann af sínum eigin gerðum. Hjer við bætist það, að alt þetta óheppilega grafreitarsvæði verður uppnotað eftir 3–4 ár; verður búið að fylla það upp og taka fyrir grafreiti, enda þótt þar verði grafið ennþá um alllangt árabil, vegna þess, að einstakir menn hafa, eins og venja er til, helgað sjer þar grafreiti fyrir ættingja, sem enn eru á lífi. Er það því fyrirsjáanlegt, að fljótt mun reka að því, að kirkjueigandi verður að afla sjer annars grafreitar, og er þá nauðsynlegt, að sá grafreitur verði ódýrari en sá, sem nú er notaður, til þess að ekki verði sömu ástæður áframhaldandi fyrir hækkuðu legkaupi. Það er því mjög óeðlilegt að lögleiða svona mikla legkaupshækkun vegna þessa litla grafreits og láta það svo gilda áfram fyrir hinn nýja grafreit, sem óhjákvæmilegt verður að útvega á næstu árum. Af þessum ástæðum leggur meiri hl. allshn. til, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 79.

Það þarf þegar í stað að rannsaka landið umhverfis bæinn í því augnamiði að finna hentugan stað fyrir nýjan grafreit, en til þess hlýtur að fara talsverður tími, og verður því nokkur aðdragandi að því, að staðurinn verði tekinn til notkunar. Stjórnin hefir nægan mannafla til þess að láta framkvæma þessa rannsókn, án þess að það hafi verulegan kostnað fyrir ríkissjóð í för með sjer, og dagskráin fer ekki fram á annað en að þetta verði gert tafarlaust.