15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Atvinnumálaráðherra (KU):

Jeg hefi ekki ástæðu til að vera sjerlega langorður um þetta mál. Hv. frsm. hefir tekið fram hvers vegna þetta frv. er fram komið og í hverju breytingar þær eru fólgnar, sem gera á á núverandi skipulagi.

Fyrir 1917 var það svo, að lögreglustjórar áttu að hafa eftirlit með mælitækjum og vogaráhöldum. Og jeg held, að ekki sje ástæða til að segja, að það hafi gengið neitt á trjefótum, og heldur ekki heyrði jeg þá neinar kvartanir yfir rangri vog eða röngum mæli. Það var að minsta kosti svo, að þar, sem jeg var lögreglustjóri, varð jeg ekki var við, að kvartað væri um slíkt. Og held jeg þó að menn hefðu kvartað, ef þeir hefðu fundið ástæðu til þess.

Jeg held því, að löggildingarstofan hafi ekki verið sjerlega nauðsynleg, og síst nú lengur. Hún er fyrst nokkuð dýr, eða að minsta kosti hefir kaupmönnum fundist það mjög dýrt að láta löggilda hjer í Reykjavík. Hv. frsm. tók það fram, að löggildingarstofan hefði gert mikið gagn, og það er rjett. Hún hefir gert talsvert gagn, eins og jeg tók fram í fyrra við umræðurnar um þetta mál, og jeg hafði þá líka í höndum skýrslu, sem sýndi, hverju hún hafði komið til leiðar. Það er nú líka komið svo, að það munu vera komin ný mælitæki og vogaráhöld víðast hvar á landinu, og úr því svo er, þá verður að teljast nægjanlegt að láta lögreglustjóra sjá um þetta. Og þeir geta svo látið hreppstjórana gæta þess á hverjum stað, að alt sje í lagi. Jeg tel því, að það muni vera alveg óhætt að samþykkja þetta frv. eins og það er.