22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Klemens Jónsson:

Það er sennilega skyldast mjer sem þingmanni að mæla fáein orð með þessu frv., þar sem jeg hafði þann heiður að leggja þetta frv. fyrir hv. Ed. Hv. þm. er sjálfsagt kunnugt um, að fyrir þessari hv. deild lá í fyrra frv. um afnám löggildingarstofunnar, og var því vísað til stjórnarinnar. Ljet þáverandi stjórn því semja frv. þetta og lagði það fyrir þingið.

Hjer er farið fram á að afnema löggildingarstofuna, þar sem hún sje óþörf og dýr. Það hafa komið fram kvartanir frá kaupmönnum víðsvegar um landið, að þessi stofnun sje óþarflega dýr og baki þeim, sem við hana skifta, ekki einungis kostnað, heldur og umstang og óþægindi. Því er lagt til, að þessi stofnun sje afnumin í sparnaðarskyni, en lögreglustjórum í helstu kaupstöðum falið að annast löggildingu mælis og vogar. Áður en löggildingarstofan var stofnuð, var þetta einnig í höndum þessara lögreglustjóra, og er mjer ekki annað kunnugt en að þeir hafi leyst það starf sæmilega af hendi. Jeg var sjálfur um langt skeið einn af þessum lögreglustjórum, og varð jeg ekki var við, að menn kvörtuðu þá um ranga vog eða mæli. Hygg jeg þessu því fullvel borgið í höndum lögreglustjóranna.

Jeg vænti því, að frv. þetta, er háttv. Ed. hefir samþykt, fái að ganga í gegnum þessa hv. deild, einkum þar sem það er fram komið að hvötum hennar. Jeg leyfi mjer að leggja til, að frv. verði vísað til nefndar, að þessari umræðu lokinni, og minnir mig, að allshn. hafi haft það til meðferðar í hv. Ed.