15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

3. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal ekki hafa langa framsögu í þessu máli, en get að mestu látið nægja að vísa til nál. á þskj. 113. Þessi lög um útflutningsgjald voru fyrst sett 1921 og þá til eins árs. Þau hafa síðan verið framlengd tvisvar og er þetta í þriðja sinn, sem um framlengingu þeirra er að ræða. Það er nú eins og áður um eins árs framlengingu að ræða. Það var ágreiningslítið samþykt í fjhn., að lögin skyldu framlengd, og sá ágreiningur, sem átti sjer þar stað, stóð ekki um það, hvort ríkissjóður þyrfti á þessum tekjuauka að halda; um það voru allir nefndarmenn sammála. Nei, sá ágreiningur var af sömu rót runninn og áður hefir bólað á, þeirri sem sje, að sumir líta svo á, að þetta gjald sje óheppilegt fyrir þá sök, að það leggi hemil á framleiðsluhvöt manna og sje of hátt. Annars er það að segja um þetta gjald, að það kemur rjettlátlegar niður en ýms önnur gjöld. Það vekur engan meting milli atvinnuvega landsins, því þeim er þar báðum gert jafnhátt undir höfði. Í öðru lagi fylgir því sá kostur, að það hreyfist með genginu, og þarf því ekki að leggja ofan á það vegna gengisbreytinga. Um þörf þessarar framlengingar var, eins og jeg tók áður fram, ekki deilt í nefndinni, því öllum var það ljóst, að ekki yrði komist hjá þessum tekjuauka. Nefndin áætlaði, að þetta gjald mundi gefa af sjer 400 þúsund kr. árgjald, og mun það síst of hátt áætlað, því eftir útflutningi undanfarinna ára mætti búast við mun meiru.

Jeg þarf svo ekki að taka fram fleira þessu máli viðvíkjandi, en vænti þess, að það gangi þrautalítið leiðar sinnar.