19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

3. mál, útflutningsgjald

Forsætisráðherra (SE):

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra er fjarverandi, leyfi jeg mjer fyrir hönd stjórnarinnar að leggja hjer fyrir hv. deild frv. til laga um framlenging á gildi laga um útflutningsgjald. Að lokinni þessari umr. óska jeg, að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þörf sje á að rökstyðja mikið þörf þessa frv. Þær bætur, sem reynt var að gera á skattalöggjöfinni með endurskoðuninni 1920, hafa sýnt sig að hafa frekar dregið úr tekjum ríkissjóðs en að auka þær. Auk þess hefir fall íslensku krónunnar átt mikinn þátt í því að draga úr tekjum landsins. Liggja til þess tvær ástæður; sú fyrst, að ríkissjóður hefir orðið að greiða mikið fje erlendis. Auk þess hefir verðaukning erlendrar myntar valdið hækkuðu vöruverði og aukinni dýrtíðaruppbót.

Yfirleitt er mikið rætt um hinn mikla tekjuhalla ríkissjóðs undanfarin ár. Þessi halli stafar fyrst og fremst af því, að ekki hefir verið gengið eins ríkt eftir því eins og skyldi að afla ríkissjóði aukinna tekna. Hjá því verður ekki komist að auka gjöld landsmanna. Þó að mikið sje kvartað undan sköttum hjá þjóðinni, þá eru þeir þó lægri hjer en víða annarsstaðar.

Með þessum formála leyfi jeg mjer að óska þess, að þetta frv. verði látið ganga til 2. umr.