27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

11. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg þarf eiginlega ekki að segja mikið meira um þetta mál en stendur í nál. mentmn. Þess var ekki að vænta, að í nefndinni væri sjerfróður maður í þessum efnum, enda býst jeg ekki við, að það komi að sök, því að breytingarnar ganga ekki svo mjög í þá átt. Nefndin hefir átt tal við hlutaðeigandi skólastjóra um málið, og ber honum í öllum aðalatriðum saman við nefndina. Hún vill því ráðleggja deildinni að samþykkja frv. þetta.

Það má segja, að þessi breyting sje hliðstæð breytingunni á kennaraskólanum, nema hjer er ekki farið fram á lengingu námstímans. Tilgangur frv. er sá, að í stað þess, að áður hafa litlar eða engar kröfur verið gerðar til inntöku í skólann, verði nú hert á inntökuskilyrðunum að miklum mun. Með því móti telur skólastjóri sig geta útskrifað langtum hæfari menn en nú gerist. Það hefir verið kvartað um undanfarið, að menn, sem útskrifast hafa af þessum skóla, hafi margir hverjir ekki reynst nægilega hæfir til skipstjórnar, og mun of lítil verkleg æfing að nokkru vera sök í því. Gert er og ráð fyrir í frv., að auknar verði kröfur um tungumálakunnáttu og að skipaður verði annar aðalkennari. Mætti svo á líta, að þar væri um aukinn kostnað að ræða, en svo er ekki nema á pappírnum, því að hingað til hefir verið settur þar aukakennari frá ári til árs, með sömu launum og skipaði kennarinn. Sú kensluskifting, sem verið hefir milli stýrimannaskólans og vjelstjóraskólans, mætti haldast. En sparnað myndi hinsvegar leiða af þessu vegna nemendafækkunar, er þetta frv. myndi hafa í för með sjer. Vegna nemendafjölda hefir hingað til orðið að kaupa aukakenslu fyrir 2000 kr. á ári. Skólastjóri gerir ráð fyrir, að ef hert væri á kröfunum, mundi nemendum fækka svo, að fella mætti niður aukakenslu í siglingafræði. Hjer er því um beinan sparnað að ræða frá því, sem nú er. Skólastjóri telur engan hörgul vera á siglingalærðum mönnum. Enda mun vera betra hjer sem annarsstaðar að útskrifa fáa góða en marga misjafna. Brtt hefir komið fram um að fella niður part af 14. gr. í sambandi við það, að legið hefir fyrir Alþingi frv. til laga um breytingar á fræðslulögunum. En þar sem mentamálanefnd getur ekki lagt þessu liðsyrði, leggur hún til, að 14. gr. verði breytt. Annars veit jeg ekki til, að í frv. sjeu neinar leynigryfjur, er geri hættulegt að ganga að því. En á hinn bóginn ætti að nást allgóður árangur með því án nokkurs tilkostnaðar.