07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Fjármálaráðherra. (JÞ):

Þegar háttv. allshn. afgreiddi frv. þetta, þá átti jeg sæti í þeirri hv. nefnd og var í minni hluta. Var jeg þá frsm. og skal jeg því ekki enn skorast undan að mæla nokkrum orðum fyrir frv., því að mjer er ljúft að halda fram svo góðum málstað, sem sje þeim, að stuðla að því, að stjfrv. nái fram að ganga. Sakna jeg þess, að hæstv. forsrh. (JM) skuli ekki vera viðstaddur umræðurnar f. h. stjórnarinnar, en það verður þá að bíða til 3. umr. sem hann hefir að segja.

Aðeins ein ástæða, sem teljast mætti veruleg, hefir verið borin fram gegn frv. þessu. Hún er sú, að forstaða þessara tveggja safna útheimti svo ólíka hæfileika, að ógerningur væri að fela hana einum og sama manni. En þessi mótbára er bygð á ónógri athugun. Jeg þori meira að segja að fullyrða, að hjer sje völ allmargra manna, sem færir sjeu að hafa forstöðu beggja safnanna á hendi. Meira að segja eru til menn hjer, sem hafa sjerstaklega sýnt það, að þeir hafa aflað sjer þeirrar þekkingar, sem til þess þarf að veita báðum þessum söfnum forstöðu. En nú stendur dálítið sjerstaklega á í þessu máli, því að þegar er losnuð önnur þessara staða vegna fráfalls mannsins, sem veitti Þjóðskjalasafninu forstöðu. Og töluverðar líkur eru taldar á því, að ekki muni líða á löngu þangað til forstaða hins safnsins losnar líka. Og þó að svo kunni að vera, að auðfundnir sjeu menn, sem veitt geta báðum þessum söfnum forstöðu, þá má vera, að erfitt sje fyrir mann, sem nú kemur utan að, að taka við báðum söfnunum í einu, og því sje erfitt að koma sameiningunni á eins og nú standa sakir. Um þetta hefði hæstv. forsrh. betur getað sagt en jeg, og skal jeg ekki frekar að því víkja.

Eins og hv. þdm. muna, er hjer á ferðinni annað frv., sem snertir þetta mál að nokkru leyti. Það er frv. um breyting á háskólalögunum. Er það nú komið frá nefnd, og í till. nefndarinnar er gert ráð fyrir því, að forstöðumenn þessara safna starfi sem aukakennarar við heimspekideild háskólans. Jafnframt er gert ráð fyrir þremur fastakennurum, eins og ákveðið var, þegar háskólinn var stofnaður. Því er lýst í ástæðum minni hlutans um þetta mál, að heppilegasta úrlausnin myndi vera sú, að fækkað væri um einn fastakennara í íslenskum fræðum, en þessum tveim embættum haldið og báðum mönnunum, sem þau skipuðu, gert að skyldu að starfa sem aukakennarar við heimspekideildina. En hv. mentmn. hefir ekki fallist á að fækka fastakennurunum við heimspekideildina frá því, sem ákveðið var í upphafi, og getur þá minni hlutinn ekki sjeð, að nein nauðsyn sje á að halda tveim forstöðumönnum við söfnin til þess sjerstaklega að hafa á hendi kenslu við háskólann. Því vill hann mæla með því, að embættin sjeu sameinuð, en sjer sjer ekki fært að skylda hinn eina forstöðumann til þess að hafa jafnframt kenslu á hendi. Gæti að vísu svo borið við, að maður veldist í þessa stöðu, sem slíkt væri fær um, en ekki virðist heppilegt að skipa svo fyrir með lögum, því að starfið við safnið yrði ærið eins manns verk, eða að minsta kosti nóg.

Hjer er komin fram brtt. við frv. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem fer í þá átt, að í stað þess að sameina þessi tvö embætti sje svo ákveðið, að aðstoðarvarðarsýslanin við Þjóðskjalasafnið skuli niður lögð. Þessi till. mun í reyndinni fara nærri því, sem fyrirhugað er um framkvæmdina, ef stjórnarfrv. nær fram að ganga, eftir því, sem jeg best veit. Því jeg hygg, að reynt verði að fá samkomulag um þá tilhögun, að sá, sem nú starfar við Þjóðskjalasafnið, verði skjalavörður, og sameining komi ekki til greina fyr en hann, sem nú er maður hníginn á efra aldur, ljeti af embætti.

Því hefi jeg farið fram á það við hv. þm. V.-Ísf., að hann taki till sína aftur til 3. umr., í því skyni, að leitað verði samkomulags um málið. Ætla jeg það auðfengið, ef sá hv. þm. (ÁÁ) getur annars gengið inn á það, að þessar tvær yfirmannsstöður við söfnin verði sameinaðar að lokum, þ. e. þegar yfirskjalavarðarambættið losnar í næsta sinn. Jeg vil ennfremur gera það að tillögu minni, að hv. deild vísi aðalfrv. einnig til 3. umr., og geri mjer sem sagt vonir um, að þá náist samkomulag um viðunanleg úrslit.