15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm 1. kjörbrjefadeildar (JÞ):

1. kjörbrjefadeild athugaði kosningu 13 þingmanna úr 3. kjörbrjefadeild, og af þeim höfðu 10 kjörbrjef sín í fullri reglu, svo þar var ekkert við að athuga. Ellefti þingmaðurinn, háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) tjáði oss, að hann hefði gleymt kjörbrjefi sínu heima hjá sjer, en fyrir kjörbrjefadeildinni lá afrit úr gerðabók yfirkjörstjórnarinnar í Suður-Múlasýslu, er sýnir, að yfirkjörstjórnin þar hefir bókað hann rjett kosinn þm. fyrir kjördæmið og hefir gefið út kjörbrjef handa honum. Ennfremur lá fyrir kjörbrjefadeildinni vottorð frá manni úr yfirkjörstjórn Suður-Múlasýslu um sama efni. 1. kjörbrjefadeild er því sammála um að telja kosningu þessa þm. sannaða og fullgilda. Er því eigi meira um þetta atriði að segja.

Þá eru eftir kosningar tveggja þm., þm. Seyðf. og 2. þm. Eyf. Yfir báðum þeim kosningum hefir verið kært. Skal jeg þar fyrst skýra frá málavöxtum. Um kosninguna á Seyðisfirði hefir kjörstjórnin bókað, að þar hafi verið kosinn þm. Jóhannes Jóhannesson með 195 atkv., en hinn frambjóðandinn, Karl Finnbogason, hafi fengið 178 atkv., og gaf því yfirkjörstjórnin þar út kjörbrjef handa Jóhannesi Jóhannessyni. Þessa kosningu hefir hinn frambjóðandinn, K. F., kært og eru helstu atriðin í kæru hans þau 1) að hann mótmælir gildi tveggja heimagreiddra atkvæða Jóh. Jóh., sem kjörstjórnin tók gild, en þar voru stafsetningarvillur í nafni Jóh. Jóh. En það er þó öldungis augljóst, að kjósandinn hefir ætlað sjer að kjósa Jóh. Jóh., en eigi hinn frambjóðandann, og kjörbrjefadeildin telur úrskurð kjörstjórnarinnar rjettan, að telja þessi atkv. gild. Þá má geta enn eins vafaseðils, sem kjörstjórnin tók gildan og taldi Karli Finnbogasyni, en umboðsmaður Jóhannesar hafði mótmælt gildi þessa seðils. Kjörbrjefadeildin gat ekki betur sjeð en þessi seðill væri auður og hefði því átt að ógildast; en annars hefir þetta atriði engin áhrif á kosninguna. 2) Þá er annað og um leið helsta kæruatriðið, — um heimakosningarnar, að læknisvottorðin hafi verið ófullkomin. Hjeraðslæknir var veikur á kjördegi og gaf m. a. sjálfum sjer vottorð um það og kaus sjálfur heima. Undir vottorð þau, er hjeraðslæknir gaf kjósendum, er þess þurftu með, hafði hann látið vjelrita fyrir sig eyðublöð, með eyðum fyrir nafni kjósandans og sjálfs sín, og ritaði með eigin hendi nafn kjósandans og undirritaði vottorðið einnig með eiginhandarnafni sínu. Vottorðin hljóðuðu á þessa leið:

„Jeg undirritaður votta það, að kjósandinn ........ eigi treystist til þess að fara á kjörstaðinn á morgun vegna lasleika.

Hjeraðslæknirinn á Seyðisfirði.

26. okt. 1923.

K. Kristjánsson.

Krafa kæranda er sú, að öll heimagreidd atkv. verði gerð ógild af þeirri ástæðu, að læknisvottorðin hafi verið ófullnægjandi, og kosning Jóh. Jóh. sje ógild, af því að ef öll heimagreidd atkvæði verða gerð ónýt, hverfur meiri hluti Jóh. Jóh. Kjörbrjefadeildin gat eigi litið þannig á þetta mál, og er hún öll sammála um, að eigi geti komið til mála að ógilda kosningu Jóh. Jóh. fyrir þessar sakir. Það er enginn efi á því, að vottorð læknisins eru aðeins gefin í því skyni að nota þau sem sönnun fyrir forföllum kjósendanna, eins og lögin gera ráð fyrir, og með því að gefa slík læknisvottorð álítur kjörbrjefadeildin, að læknirinn votti, að hann sje samþykkur þessu áliti kjósendanna, — þ. e. að þeir sjeu ekki ferðafærir til kjörstaðar. Með öðrum orðum, kjörbrjefadeildin álítur, að vottorðin sjeu rjett. Að vísu er það vitanlegt, að læknirinn lá rúmfastur og gat eigi vitjað sjúklinganna, en það hlýtur að vera öllum ljóst, að hjeraðslæknir, sem er búinn að vera jafnlengi í eigi stærra hjeraði en hjer er um að ræða, mun vissulega vera svo kunnugur heilsufari hjeraðsbúa, að hann í mjög mörgum tilfellum getur gefið slík vottorð án þess að vitja sjúklingsins. Að því er viðvíkur orðalagi vottorðanna, vill kjörbrjefadeildin líta á það, að í lögunum um heimakosningar er gert ráð fyrir því, að utan kaupstaða geti hreppstjórar gefið slík vottorð. Þar getur eigi verið ætlast til, að hreppstjórar gefi vottorð, sem bygð sjeu á læknisfræðilegri þekkingu; það er vitanlegt, að þeir hafa hana ekki til að bera. Það má því gera ráð fyrir, að hreppstjórarnir fari eftir því, sem sjúklingarnir segja um það, hvort þeir treysti sjer á kjörstað eða ekki, og vottorð þeirra hljóða því ekki um annað, er þeir sjá eigi neitt, sem ósannar þessa skoðun sjúklingsins. Utan kaupstaða er ekki farið fram á annað en það, sem þessi vottorð hljóða um, og hljóta þau því að vera fullnægjandi. En kjörbrjefadeildin treystist eigi til að gera upp á milli kjósenda í kaupstöðum og kjósenda í hreppunum og gera þessi atkv. ógild, vegna þess að orðalag vottorðanna er líkara vottorðum, gefnum í sveitum, en vænta má fyrirfram um orðalag vottorða, útgefinna í kaupstað. Hin kæruatriðin eru öll smávægileg. Í einstaka tilfelli hefir kjósandinn sjálfur beðið lækninn um vottorð, og getur slíkt eigi verið ógildingarástæða fyrir kjörstjórnina, er fær þau gögn í hendur. Kjörbrjefadeildin álítur eigi neitt það upplýst í málinu, sem geti gert þessa kosningu ógilda, og eyði jeg því ekki fleiri orðum um Seyðisfjarðarkosninguna; en kjörbrjefadeildin gerir einróma, eða að minsta kosti án mótatkvæða, tillögu um, að kosning Jóh. Jóh. sje tekin gild.

Þá er eftir Eyjafjarðarkosningin. Þar er tvímenningskjördæmi, sem kunnugt er. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kosna frambjóðendurna Einar Árnason með 1093 atkv. og Bernharð Stefánsson með 900 atkv. Næsta frambjóðanda voru af yfirkjörstjórn talin 895 atkv. Allar kærurnar snerta aðeins kosningu Bernh. St. Fyrsta kæran, frá einum af frambjóðendunum, Stefáni Jóh. Stefánssyni, gerir aðallega að kæruatriði heimakosningarnar á Siglufirði. Efni kærunnar er í stuttu máli það, að meiri brögð hafi verið að heimakosningum en eðlilegt hafi verið og að mönnum hafi verið látin í tje læknisvottorð og þeir kosið heima, án þess að þeir væru þess vanmáttugir að komast á kjörstað; en yfir höfuð er upplýst, að þau atkv., sem þannig eru fram komin, hafa á engan hátt verið öðruvísi útbúin en lögum samkvæmt. Það er fyllilega gefið í skyn í kærunni, að læknirinn á Siglufirði hafi látið í ljósi, að sjer væri ant um að menn neyttu kosningarrjettar síns á þennan hátt, en kjörbrjefadeildin gat eigi fundið neitt það staðfest í kærunni, sem gæti gert rjettmætt að ónýta kosninguna, vegna þessara heimagreiddu atkv. á Siglufirði. Annað mál er það, að kjörbrjefadeildin er sammála um það, að heimildarlögin um heimakosningar geti orkað tvímælis, hvernig þeim skuli beitt, og að þarna hafi þau ef til vill verið teygð lengra en hófi gegndi og álítur það vera yfirvegunaratriði fyrir Alþingi, hvort rjettara sje að nema lögin um heimakosningar úr gildi eða gera ráðstafanir til að þau verði eigi notuð eftirleiðis eins og gert hefir verið; því kunnugt mun vera um, að þeim hafi víðar verið freklega beitt en í Eyjafirði.

Þá eru 3 kærur frá kjósendum yfir þessari kosningu, en að efni til þó eigi nema tvær, og fara báðar í sömu átt, að því leyti, að krafist er að Stefán Stefánsson sje viðurkendur rjettkosinn 2. þm. kjördæmisins; en til vara, að kosning 2. þm. kjördæmisins verði gerð ógild, því sá, sem kjörbrjef hafi fengið, hafi eigi haft meiri hluta atkv., og kosning. hans sje því ógild. Samkvæmt kærunni hafa yfirkjörstjórninni verið send 6 heimagreidd atkvæði úr einum hreppi í kjördæminu, er eigi höfðu komist til undirkjörstjórnar í tæka tíð, svo þau komust eigi í atkvæðakassann; en yfirkjörstjórn neitaði að taka þessi atkvæði gild. Kjörbrjefadeildin álítur yfirkjörstjórnina hafa farið rjett að í þessu. Lögin mæla svo fyrir, að undirkjörstjórn taki aðeins á móti atkvæðum, sem koma til hennar áður en kosningarathöfninni er lokið.

Næst er kært yfir því, að ónýttir hafi verið 20 atkvæðaseðlar, þar sem Stefán Stefánsson var aðeins einn kosinn. Hafa þessir seðlar eigi verið sendir hingað, enda hafði ógildingu þeirra eigi verið mótmælt við talninguna af umboðsmanni St. St., en kjósendur, er kæra, vilja láta telja þá gilda. Er og vottorð um það frá yfirkjörstjórn, að seðlar þessir hafi verið 20 að tölu og að þeir hafi allir verið greiddir Stefáni. Frá því er raunar skýrt, og stendur ómótmælt, að af þessum 20 seðlum hafi á 17 þeirra verið stimplað yfir doppuna framan við auða reitinn um leið og stimplað var við nafn Stefáns Stefánssonar. Um þetta eru að vísu skiftar skoðanir, hvort eigi ætti að telja þessi atkv. gild, en hinsvegar veit jeg, að því hefir verið fylgt sem ófrávíkjanlegri reglu, að slíkir seðlar væru ógildir. Ef víkja ætti frá þessari reglu, yrði að kunngera það áður með lagabreytingu eða á einhvern annan hátt, en hitt er ófært, að ógilda þessa kosningu vegna þess að kjörstjórnin hefir fylgt fastri reglu. Næsta kæruatriði er það, að 3 heimagreidd atkv. voru hvorki vottuð af sýslumanni nje hreppstjóra, heldur af umboðsmanni hreppstjóra. Þetta álítur kjörbrjefadeildin að vísu vera óheimilt, en veit þó til, að hefir átt sjer stað víðar en í þessu kjördæmi og eigi verið kært, og eins lítur hún á hitt, að þetta er í fyrsta sinnið, sem heimakosningar eru framkvæmdar, og vill því eigi taka hart á því, þó þeim hafi eigi verið fylgt út í æsar. Hreppstjóranum hefir ef til vill eigi verið ljóst, að lögin leyfa eigi, að hann gefi umboð til þessa, en gert það í þeirri trú, að það væri heimilt; auk þess er ekkert upplýst um, at atkv. hafi farið á annan veg en kjósendurnir óskuðu, en það er grundvallarregla kosningalaganna, að vilji kjósanda fái að njóta sín. Kjörbrjefadeildin álítur því ekki rjett að ónýta kosninguna af þessum ástæðum. Hún álítur, að kosningin hafi farið að vilja kjósenda, og kosningar eiga að vera þannig, að vilji kjósenda komi fram. En ef þetta yrði að venju, að hreppstjórar gæfu öðrum umboð, gæti það leitt til misbeitingar, og er slíkt varhugavert. Vill kjörbrjefadeildin ekki láta samþykt kosningar þessarar skoðast sem fordæmi fyrir því, að þetta yrði leyft eftirleiðis. Þess er getið í gerðabók yfirkjörstjórnar, að í Árskógsstrandarhreppi beri gerðabók kjörstjórnarinnar þar með sjer, að 3 menn kjósa þar, sem ekki stóðu á kjörskrá, en áttu þó þar að vera. Undirkjörstjórnin tók á móti atkvæðum þeirra, og var það rangt. Sömuleiðis hafði komið einn seðill úr Öxnadal, sem undirkjörstjórn tók ekki gildan af þessum ástæðum, en fór óvart í atkvæðakassann hjá yfirkjörstjórninni. Eru því 4 atkv., sem eru ógild, og sjeu þau dregin frá atkvæðatölu Bernh. Stef., verður meiri hluti hans einungis 1 atkvæði. Yfirkjörstjórnin hefir sent hingað 13 seðla, sem ágreiningur reis út af; kjörbrjefadeildin hefir athugað þá alla. Tveir þeirra eru talsvert óhreinir af svertu, en sjest þó greinilega, að kosnir voru á öðrum E. Á. og Bernh. St., og Stefán og Sig. Hlíðar á hinum, og gerði því ekki til um þá, er þeir vega hvor annan upp, en rjettara hefði verið að taka þá gilda. Þar næst voru 2, sem ekki koma til greina; kjörbrjefadeildin álítur þá auða. Næst voru 6 seðlar, þar sem á voru greinilega kosnir tveir frambjóðendur, en auk þess á öllum þeirra stimplað yfir doppuna framan við auða reitinn, og álítur kjörbrjefadeildin rjettan úrskurð yfirkjörstjórnar, að þeir skuli teljast ógildir. Þá er einn seðill, sem greinilega virðist stimplaður yfir doppurnar fyrir framan nöfn þeirra Stefáns Stefánssonar og Sigurðar Hlíðar, en er líka dálítið svertur fyrir framan nöfn þeirra Einars Árnasonar og Bernharðs Stefánssonar. En helst lítur út fyrir, að það sje ekki gert með stimpli, heldur með fingurgómi. Meiri hluti kjörbrjefadeildarinnar vildi þó ekki ógilda úrskurð yfirkjörstjórnarinnar og taka þennan seðil gildan. En einn kjörbrjefadeildarmanna vildi taka hann gildan til handa þeim Sigurði Hlíðar og Stefáni Stefánssyni. Þó nú svo hefði verið gert, var það ekki sönnun fyrir því, að Bernharð Stefánsson hafi ekki fengið meiri hluta gildra atkvæða. Komst kjörbrjefadeildin því að þeirri niðurstöðu, að einnig bæri að taka gilda kosningu Bernharðs Stefánssonar sem 2. þm. Eyfirðinga.