07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Jeg heyri, að hæstv. fjrh. (JÞ), sem einnig er frsm. minni hlutans, blandar töluvert ýmsu persónulegu inn í þetta mál. Það hefi jeg forðast. Mjer er alveg sama, hvort þessir forstöðumenn eru núlifandi menn eða forstöðumenn í framtíðinni, ungir eða gamlir; heldur vakir það eingöngu fyrir mjer, að jeg tel það illa ráðið, ef þessi tvö söfn verða sameinuð. Einnig hefir öðru máli verið blandað inn í þessar umræður, sem sje frv. um háskólann. Það er sem sje svo hugsað, að ef söfnin eru aðskilin, þá er gert ráð fyrir því, að forstöðumennirnir sjeu jafnframt aukakennarar við heimspekideildina, en aðeins einn fastur kennari.

Mentmn. hefir ekki getað fallist á þetta, af þeim ástæðum, að þótt deildinni gæti verið styrkur að því að fá þessa fróðu menn til þess að kenna, sem þá sjerstaklega yrði það, að þeir hjeldu fyrirlestra um sjerfræðileg efni, þá er ekki þar með sagt, að þeir gætu komið að gagni til þess að undirbúa menn undir meistarapróf. Þau efni gætu verið valin á annan hátt. Og svo gæti farið, að þótt þessir sjerfræðingar hefðu kenslu á hendi í deildinni, þá vantaði algerlega kenslu á köflum í því, sem menn þurfa að vita til meistaraprófs, enda er það ekki sæmilegt, að aðeins einn kennari sje í deildinni, og þó þeir væru fleiri, held jeg, að hv. þm. þyrftu ekki að vera eins hræddir og þeir virðast vera um það, að háskólinn hlypi í blístur og fitu, þó að hann fengi líka þessa aukakennara. Hitt er rjett, að eigi einn maður að veita báðum söfnunum forstöðu, þá er auðvitað þar með úr sögunni, að hann hafi kenslu á hendi, og þyrfti því að breyta háskólafrv. í þá átt, ef til kemur.

Annars þykir mjer hálfleiðinlegt, að hæstv. fjrh. skuli leggja mannorð sitt við aths. þessa frv., og býst jeg við, að það komi af því, að hann hefir ekki athugað þær nógu nákvæmlega. Jeg trúi hæstv. fjrh. varla til þess að blanda saman handritum og skjölum. Ef menn teldu hvorttveggja hið sama, mætti alveg eins segja, að stjórnarskrá og markaskrá væri eitt og hið sama, því að hvorttveggja endaði á „skrá“, og að af því ætti að leiða, að maður, sem góður er til að semja markaskrá, væri einstaklega fær um að búa til stjórnarskrá. Auðvitað eru bæði skjöl og handrit rituð með penna og bleki oft og einatt og fest inn í bækur, og eigi að leggja áhersluna eingöngu á það eina sameiginlega atriði, þá má auðvitað segja, að mikið sje til af hvorumtveggja í báðum söfnunum. En að þetta sýni, að báðar stofnanirnar, landsbókasafn og þjóðskjalasafn, sjeu ein og hin sama, er fjarri öllum sanni. Málstaður hv. minni hl. er bygður á þeirri fullyrðing einni, að hægt sje að finna menn, sem geti veitt báðum söfnunum forstöðu. En jeg hygg nú, að þeir menn sjeu vandfundnir, sem veitt geti forstöðu hvoru safninu fyrir sig, hvað þá báðum. Það er náttúrlega altaf hægt að segja, að til sjeu nógir menn. Það er hægt að taka hvern sem er og setja hann yfir söfnin, en hvað vel það gæfist og hversu mikið hann ynni til gagns, er eftir að vita. Annars nenni jeg ekki að taka upp þær röksemdir, sem búið er að leiða fram um það, að þessar stöður verði sjerfróðir menn að skipa. Og þar að auki er geysimikið verk að veita öðru safninu forstöðu, ef maðurinn á ekki að vera tóm „toppfígúra“, heldur vinnandi maður. Eigi forstöðumaðurinn aðeins að vera „toppfígúra“, þá er ekkert að segja. Jeg treysti mjer til að standa fyrir öllum stofnunum ríkisins, ef jeg hefi aðeins nógu marga menn undir mjer, sem vinna öll verkin. En eigi þessir menn að sjá um söfnin og vinna að þeim, þá er starf þeirra gríðarmikið. Það er t. d. sagt, að ákaflega mikið verk þurfi að vinna til þess að koma lagi á Landsbókasafnið og þurfi áhlaupamann til að gera það vel úr garði. Um Þjóðskjalasafnið er það sannast að segja, að menn eru að læra að stjórna því alla æfina, og er nú ómögulegt að nota það safn nema af þaulkunnugum manni eða með leiðsögn hans. Vantar fullnægjandi skrá yfir það. Og hætt er við, að eitthvað myndi sú stjórn lenda í handaskolum, ef það safn yrði gert að selstöðu frá Landsbókasafninu og einhverjum fengin stjórn þess og afgreiðsla, sem enga ábyrgð bæri.

Því vil jeg vona, að hv. þdm. afgreiði nú mál þetta í þriðja skifti með sömu skilum og áður, og ætti þeim að veitast það því ljettara, sem bent hefir verið á meiri sparnað við þessi söfn en nokkra aðra stofnun, því frv. þetta kynni að vera eðlilegt á slíkum sparnaðartímum, ef ekki hefði verið bent á neinn annan sparnað. En sú ástæða er úr sögunni.