09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Forsætisráðherra (JM):

Hv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ) hefir að mestu leyti svarað hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Það er rjett, að okkur hv. þm. V.-Ísf. greinir ekki mjög mikið á, nema um sparnaðinn. Hann er talsvert meiri eftir stjfrv. en eftir tillögu hv. þm., því að ekki lítill munur er á launum aðstoðarmanns og forstöðumanns.

Jeg hygg, að tilfinningar ráði nokkru í þessu máli. Mönnum finst, að hvorki dr. Jón Þorkelsson nje Hannes Þorsteinsson hefðu átt að vinna þarna öðruvísi en sem sjálfstæðir húsbændur, þó að Hannes Þorsteinsson hafi reyndar lengst af verið aðstoðarmaður.

Það er öllum vitanlegt, að ekki er nema eins manns verk að anna skjalasafninu. Nú hafa um langa stund verið þar tveir menn, en þeir hafa fremur verið þar sem vísindamenn en skjalaverðir og notað tímann meir til vísindaiðkana en vinnu við safnið. Safnið hefir beinlínis verið vísindamannastöð og er það ákaflega gott og því eðlilegt, að mönnum kæmi til hugar, að forstöðumaður safnsins gæti kent við háskólann. Þetta væri tilvalið, ef vjer hefðum efni á því, en það höfum vjer því miður ekki eins og fjárhagurinn er nú. Það er ekki heldur óvirðuleg staða að vera skjalavörður, og er jeg sannfærður um, að í þá stöðu mundi jafnan völ á nýtum fræðimönnum. Virðist því alt benda á, að rjett sje að leggja skjalasafnið undir Landsbókasafnið.

Að söfnunum verði ruglað saman við þetta, nær engri átt. Það má vera, að verði aðeins einn lestrarsalur, megi síður nota hann til skáldsagnalestrar, en meir til vísindaiðkana. Vonandi kemur bæjarbókasafn, er nota má á svipaðan hátt sem lestrarsalur Landsbókasafnsins er notaður nú. Jeg vænti því þess, að brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) verði feld, en frv. samþykt óbreytt. Það er alveg vafalaust, að öllu má halda í hinni bestu reglu, þó að frv. verði samþykt.