09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Tryggvi Þórhallsson:

Það var aðeins stutt fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM). Í frv. þessu stendur, að lög þessi öðlist gildi þegar í stað. Eftir því mætti ætla, að sameiningin færi fram nú þegar, þar sem svo stendur á, að annað þetta embætti er laust og hitt eftir sögn í þann veginn að losna. Nú hefi jeg samt heyrt því fleygt, að það muni vera í þann veginn verið að veita í þessar stöður. Jeg er ekki að leggja neitt áfellisorð á hæstv. stjórn fyrir það, sem sagt er, að hún hafi í huga viðvíkjandi þessum embættum, en hitt vil jeg benda á, að það væri harla óviðfeldið, að þingið samþykti slík lög rjett í sama mund og verið væri að gera slíkar ráðstafanir. Jeg vildi aðeins beina þessari fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort nokkuð sje hæft í þessu.